Eins og kunnugt er hafa staðið yfir miklar hafnarframkvæmdir við Hólmavíkurhöfn síðustu vikur og á föstudaginn dró heldur betur til tíðinda við þær framkvæmdir. Verið var að bora niður festingar fyrir stálþilið við suðvesturhornið á hafskipabryggjunni, þar sem ljósamastrið er, þegar menn urðu varir við að heitt vatn streymdi úr borholunni og út í sjóinn. Til að fagna þessum happafeng stendur Strandabyggð fyrir samkomu á bryggjunni kl. 16:00 í dag, sunnudag. Verður skálað í heita vatninu, auk þess sem Ingibjörg Valgeirsdóttir sveitarstjóri Strandabyggðar mun halda hátíðarræðu og stjórna hópefli og leikjum af þessu tilefni.
Fulltrúar Orkustofnunar og Siglingamálastofnunar komu á svæðið í gær og mældu vatnsmagnið og kom í ljós að þarna er mikið af heitu vatni, svo mikið að það gæti vel nægt fyrir hitaveitu fyrir Hólmavík alla og jafnvel eru taldir möguleikar á ylströnd frá bryggjunni og inn að Sýslumannsbústað. Vatnið er allt að 90 °C á 100 metra dýpi.
Haukur Jóhannesson jarðfræðingur telur líklegt að heita vatnið hafi ef til vill seytlað þarna í sjóinn árum saman, rétt við nefið á íbúum Hólmavíkur. Það gæti m.a. vel skýrt mikla makrílgengd upp að bryggjunni á Hólmavík síðustu sumur.
Fyrirhugað er að stofna fyrirtæki sem sjái um að virkja vatnið og lögn hitaveitu og hefur það þegar fengið nafnið Gvendarbrunnur, eins og laugin í Kálfanesi sem Guðmundur biskup góði vígði á sínum tíma. Íbúum verður gefinn kostur á að taka þátt í því fyrirtæki og er búist við að arðsemi þess verði með mestu ágætum.
Ath: Aprílgabb.