22/12/2024

Haustþing Þjóðfræðistofu á Hólmavík 13. september

Á Haustþingi Þjóðfræðistofu, laugardaginn 13. september verður mikið um dýrðir. Þá mun Kristinn Schram forstöðumaður funda með fagráði sínu Hólmavík og halda kynningu á fræðasetrinu fyrir alla áhugasama. Að því loknu mun Dr. Cliona O’Carroll flytja erindi um gerð þjóðfræðilegra útvarpsþátta en Cliona er lektor við Háskólann í Cork á Írlandi og situr í fagráði Þjóðfræðistofu. Þjóðfræðistofa er rannsóknarstofnun og fræðasetur sem starfrækt er á Ströndum og sinnir rannsóknum og miðlun á landsvísu. Fyrirhugað er að hún verði sjálfbær vinnustaður háskólamenntaðra starfsmanna sem hafa menntun í íslenskum fræðum, þjóðfræði, sagnfræði og miðlun menningarsögu.

Innan ramma Þjóðfræðistofu er unnið að rannsóknar- og miðlunarverkefnum
um íslenska þjóðfræði og margvíslegum samvinnuverkefnum á sviði
þjóðfræði, menningar og lista.

Á meðal fjölbreyttra verkefna þjóðfræðistofu eru rannsóknir á ímynd Íslendinga, matarmenningu og gerð heimildamyndar um slóðir Gísla sögu Súrssonar. Jafnframt kemur Þjóðfræðistofa að upplýsingamiðstöð um íslenska þjóðtrú og þjóðfræði, þar sem veittar eru upplýsingar og fyrirspurnum svarað frá fjölmiðlum, listamönnum, stofnunum og einstaklingum, bæði hér á landi og erlendis frá.

Erindi Cliona O’Carroll nefnist "How’s it going, boy?": community ethnography for radio in Cork, Ireland. Þar fjallar hún um hið svokallaða Northside Folklore Project sem er samfélagslegt verkefni þar sem safnað var frásögnum fólks í Cork á Írlandi. Gerð var þjóðfræðileg útvarpsþáttaröð sem kannaði borgina frá sjónarhóli íbúanna og endurspeglaði þannig fjölbreyttan þjóðernisbakgrunn og persónulegar upplifanir fjölmargra Corkverja.  Verkefnið vakti upp  margar spurningar um samspil þjóðfræði og fjölmiðlunar, fólksflutninga og staðarvitund  og hvaða hagnýtu möguleikar kunni að felast í samfélagslegum þjóðfræðiverkefnum. Nánar um verkefnið á http://www.ucc.ie/research/nfp/.  Erindið verður flutt á ensku. Þjóðfræðistofa býður alla velkomna á kynninguna, laugardaginn 13. september kl. 15:00. Nánar auglýst síðar.

Allar frekari upplýsingar gefur Kristinn Schram – netfang kristinn@akademia.is .


Cliona O’Carroll