22/12/2024

Hátt í fimmtíu spiluðu félagsvist

Foreldrafélag Grunnskólans á Hólmavík stóð fyrir félagsvist í félagsheimilinu á Hólmavík í gærkvöldi. Hátt í fimmtíu manns á öllum aldri tóku í spil og skemmtu sér konunglega. Spilaðar voru 18 umferðir á ellefu borðum. Rakel Jónsdóttir hlaut fyrstu verðlaun í kvennaflokki og Ingimundur Pálsson fyrstu verðlaun í karlaflokki. Jakob Ingi Sverrisson og Sylvía Bjarkadóttir fengu sárabætur fyrir lægsta slagafjöldann og Ólafur Orri Másson og Jensína Pálsdóttir fengu setuverðlaun. Foreldrafélagið stóð nokkrum sinnum fyrir félagsvist síðasta vetur en þetta var fyrsta spilakvöldið þennan vetur. Að þessu sinni safnar félagið fyrir samlokugrillum fyrir Grunnskólann.