Háskólakórinn er að halda af stað í vorferð og liggur leiðin á Snæfellsnes, Strandir og Vestfirði. Kórinn mun meðal annars halda tónleika í Hólmavíkurkirkju mánudaginn 30. maí kl. 20:00, en aðrir tónleikastaðir í ferðinni eru Stykkishólmskirkja (27. maí, kl. 20:00) og Ísafjarðarkirkja (29. maí, kl. 20:00). Efnisskráin er fjölbreytt, lífleg og skemmtileg og er aðgangur ókeypis á alla tónleikana. Háskólakórinn var stofnaður árið 1972 og hefur frá upphafi sungið við helstu athafnir Háskóla Íslands auk þess að halda eigin tónleika og standa að útgáfu.
Háskólakórinn hefur einnig farið víða um heim og kynnt íslenska tónlist. Hefur kórinn frumflutt mörg íslensk verk og má þar til dæmis nefna Æfintýravísur eftir Jón Leifs sem kórinn frumflutti á síðasta ári og flytur á tónleikunum. Á efnisskránni verða einnig fleiri íslensk verk sem verða á geisladiski sem kórinn stefnir á að gefa út á árinu. Háskólakórinn kemur fram undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar.