22/12/2024

Harmonikkuball fyrir alla aldurshópa á Hólmavík

Harmónikkudansleikur fyrir alla fjölskylduna verður haldinn í Félagsheimilinu á Hólmavík 2. janúar og stendur frá kl. 20.00-23.00. Er þetta dansleikur fyrir alla aldurshópa og tilvalið fyrir ömmur og afa eða foreldra að kenna börnunum sporin í gömlu dönsunum eða þá öfugt ef þannig stendur á. Dragspilin munu þenja Guðbjartur Björgvinsson, Ásdís Jónsdóttir og fleiri, auk þess sem gestaundirleikarar eru einnig velkomnir með sínar nikkur. Veitingasala verður á staðnum, en varla þarf að taka það fram að áfengisneysla er auðvitað óheimil á þessari fjölskylduskemmtun. Miðaverð er 1500 kr. fyrir 16 ára og eldri, 500 kr. fyrir 12-15 ára og ókeypis fyrir börn yngri en 12 ára. Posi á staðnum.

Allur ágóði rennur í ferðasjóð 8. og 9. bekkja Grunnskólans á Hólmavík, en þau ætla að heimsækja krakka á sama aldri í vinabæ Hólmavíkur sem er Arslev í Danmörku í ágúst 2010. Þessi ferð hefur verið farin annað hvert ár undanfarinn áratug, en á móti hafa dönsku krakkarnir heimsótt Strandir hitt árið. Danmerkursjóður 8. og 9. bekkja stendur eins og margir vita fyrir fjáröflun fyrir Danmerkurferð næsta haust og hefur verið mikill kraftur í fjáröfluninni í vetur og gaman að fylgjast með uppátækjum krakkanna.