I dag var opnuð merkileg hannyrðasýning á Hótel Djúpavík á Ströndum. Þar eru til sýnis munir eftir Pálínu Jennýju Þórólfsdóttur frá Finnbogastöðum sem starfaði áður fyrr sem handavinnukennari í
Finnbogastaðaskóla. Nemendur
hennar eiga einnig muni á sýningunni sem verður opin til ágústloka. Pálína er níræð á árinu, en hún er fædd í Litlu-Ávík 17. febrúar 1921.
Móðir hennar Jóhanna
Guðbjörg Jónsdóttir (f. 2. mars 1899, d. 5. október 1928) var aðeins 29
ára að aldri þegar hún lést frá sex ungum börnum sínum. Pálína var
aðeins sjö ára þegar móðir hennar féll frá og var börnunum komið fyrir á
ýmsum bæjum í sveitinni. Pálínu var komið fyrir á Finnbogastöðum og
giftist hún síðar Þorsteini Guðmundsyni bóndasyni þar og tóku þau við
búinu. Börn þeirra eru Guðmundur sem býr á Finnbogastöðum og Guðbjörg
sem býr í Bæ. Faðir Pálínu var Þórólfur Jónsson (f. 11. september 1890,
d. 21. apríl 1964). Pálína Jenný býr nú á Akureyri á dvalarheimilinu
Hlíð.