Hamingjan svífur og sólin skín á Hólmavík þessa dagana, en þar eru Hamingjudagar nú haldnir í áttunda sinn. Hátíðin nær hámarki nú um helgina, en þá mætir m.a. töframaðurinn Ingó Geirdal á svæðið með magnaða töfrasýningu, KK heldur ókeypis tónleika fyrir alla gesti hátíðarinnar, Leikhópurinn Lotta sýnir Stígvélaða köttinn, Hvanndalsbræður spila á stórdansleik í félagsheimilinu, Sauðfjársetur á Ströndum heldur sína árlegu Furðuleika og fjölmargar listsýningar verða opnaðar. Þá er einnig hægt að fara í gokart, siglingar, Hamingjuhlaup og ýmislegt annað. Heimamenn standa einnig sjálfir fyrir afskaplega fjölbreyttum og skemmtilegum atriðum.
Búist er við talsverðum fjölda manns á Hamingjudaga, enda spáin fín og stemmningin góð. Ekki má síðan gleyma að minnast á Hnallþóruhlaðborð að kveldi laugardags, en þá bjóða íbúar í Strandabyggð öllum gestum Hamingjudaga upp á ókeypis kræsingar í tertuformi.
Dagskrá hátíðarinnar má nálgast á vefnum www.hamingjudagar.is.