22/11/2024

Háhraðanettengingar í dreifbýli og byggðamál

Grein eftir Jón Jónsson
Nú hefur um nokkurn tíma staðið til að koma háhraðaneti til fólks og fyrirtækja í dreifbýli á Íslandi, samtals um það bil 1200 staða þar sem heilsárs búseta er til staðar eða starfandi fyrirtæki. Þessir staðir eru fyrir utan þau svæði þar sem ráðist hefur verið eða verður í slíka uppbyggingu á markaðsforsendum fjarskiptafyrirtækjanna. Fjölmargir af þessum stöðum sem enn eru án sambands eru á Vestfjörðum. Samkvæmt Fjarskiptaáætlun 2005-2010 átti þessu verkefni að vera lokið í lok ársins 2007 og hluti af söluandvirði Símans var settur í þetta framfaramál og Fjarskiptasjóður átti að sjá um framkvæmdina.

Þrátt fyrir ótvírætt mikilvægi þessarar aðgerðar er enn ekki byrjað á sjálfum framkvæmdunum við verkefnið og nú í vikunni var því frestað að ganga frá samningum og bjóðendur fengnir til að framlengja tilboðin fram í janúar. Áður hafði opnun tilboða verið frestað einu sinni þrátt fyrir ríflegan frest sem gefinn var við útboðið og áður hafði orðið ótrúlegur dráttur á undirbúningnum og því að verkefnið væri boðið út.

Enn er verið að skilgreina og semja, en framkvæmdir ekki hafnar. Það virðist því útséð um að verkefninu ljúki árið 2009, eins og núverandi samgönguráðherra hefur lýst yfir, m.a. á Fjórðungsþingi Vestfirðinga á Reykhólum í september síðastliðnum. Í ræðustól á Alþingi í mars sagði sami ráðherra að unnið væri að verkinu á háhraða (sem vekur örlítinn ugg um gæði tengingarinnar þegar hún kemur) og fyrrverandi samgönguráðherra hafði á sínum tíma einnig uppi yfirlýsingar um að verklok væru í augsýn.

Þetta verkefni mátti ekki dragast svona lengi og það má ekki dragast lengur. Háhraðanet í dreifbýlið er ein allra mikilvægasta byggðaaðgerðin fyrir vestfirskar byggðir og byggð í dreifbýlinu almennt sem hægt er að ráðast í. Almennileg nettenging er það samgöngutæki sem heimilin og fyrirtækin í dreifbýlinu á landsbyggðinni myndu nota oft á dag á hverjum degi, ef leiðin væri greið. Og það er líka réttlætismál að landsmenn allir sitji við sama borð hvað þetta varðar. Eigi menn ekki kost á almennilegri nettengingu er hvorki fólkið né fyrirtækin í dreifbýlinu samkeppnishæf, þau eru útundan í nútíma samfélagi og eiga ekki sömu möguleika á ýmsum sviðum.

Og það er einmitt slíkur langvarandi aðstöðumunur á ýmsum sviðum sem skapar mesta byggðavandann og er ein helsta ástæðan fyrir neikvæðri byggðaþróun til langs tíma litið. Það hlýtur að vera öllum ljóst að dreifbýlisbúar sitja ekki við sama borð og aðrir landsmenn í ýmsum málum. Verkefni sem tryggja íbúum landsbyggðarinnar réttmætar úrbætur á ólíkum sviðum og jöfnuð við aðra landsmenn eru látin sitja á hakanum of lengi og slíkt getur og hefur haft þær afleiðingar að menn gefast upp og hrökklast í burtu þrátt fyrir eindreginn vilja til að lifa og starfa í sveit. Og þegar sveitirnar tæmast af fólki færist jaðarinn inn í þéttbýlin sem voru í og með þjónustumiðstöðvar fyrir dreifbýlið. Sú fólksfækkun og samdráttur þjónustusvæðanna bætist við þann vanda sem skapast hefur í þorpunum vegna atvinnuháttabreytinga sem fylgja breytingum í sjávarútvegi. Það er af nógu að taka ef maður vill benda á málaflokka þar sem íbúar dreifbýlisins sitja ekki við sama borð og aðrir eða þá borga hærra verð fyrir lélegri þjónustu (eða bera aukinn kostnað vegna mismununar), s.s. samgöngumál, skortur á 3ja fasa rafmagni, hærra verð á rafmagni til húshitunar á köldum svæðum, skortur á gsm-sambandi, færri sjónvarpsstöðvar eru aðgengilegar og svo mætti áfram telja. Þetta eru allt atriði sem skipta máli í nútíma samfélagi, fyrir fólk á öllum aldri.

Mikilvægi háhraðatenginganna verður seint ofmetið. Samfélag dagsins í dag kallar á netvæðingu og netnotkun, hvort heldur sem er í mannlífinu, daglegum samskiptum, skólastarfi og atvinnulífi. Þeir sem ekki eru með aðgang að háhraðaneti eru útundan. Grunnskólabörn sem komast ekki á netið á heimili sínu sitja ekki við sama borð og önnur slík, hvorki félagslega né námslega. Fullorðnir sem vilja stunda fjarnám eiga þess engan kost frá sínu heimili, með sín ævafornu innhringisambönd. Það er tómt mál að tala um mikilvægi fjarnáms fyrir dreifðar byggðir, nema grunnkerfið sé í lagi. Á sumum bæjum tekur styttri tíma að aka í næsta bankaútibú til að borga 3 reikninga, heldur en að sitja við tölvuna og reyna að skrá þá í heimabankann.

Bændur í dreifbýlinu geta ekki notað miðlæg forrit sem nauðsynleg eru vegna gæðastýringar eða byggt upp tæknivæddan landbúnað. Fólk sem vill búa í sveit og hefur menntun til að stunda vinnu sína þaðan getur ekki notað nauðsynleg forrit og átt nauðsynleg samskipti í gegnum netið vegna vinnu sinnar. Ferðaþjónar geta ekki með góðu móti notað bókunarvélar og netttækni sem þyngra er að tengjast. Söfn og menningarstofnanir í dreifbýli geta ekki nýtt sér aðgang að netinu með sambærilegum hætti og aðrar slíkar stofnanir. Fyrirtæki í dreifbýli standa höllum fæti í samkeppninni og hafa minni möguleika á að nýta sér möguleika netsins við markaðssetningu og rekstur. Möguleikar fólks og fyrirtækja á sviði samvinnu, gæðaþróunar og sóknar til framtíðar er háð þessari uppbyggingu.

Uppbygging háhraðanets í dreifbýlinu er í senn réttlætismál og eitt af þeim verkefnum sem er allra mikilvægast fyrir verðmætasköpun í dreifbýlinu, mannlíf, menningu og atvinnulíf. Það eiga allir íbúar landsins að sitja við sama borð í upplýsingasamfélagi nútímans, dreifbýlisbúar eiga að hafa jöfn tækifæri á við aðra til að nýta þau sóknarfæri sem gefast og eru ríkuleg með aðstoð tölvutækninnar. Allir eiga að hafa möguleika á að leggja sitt af mörkum til nýsköpunar og verðmætasköpunar óháð búsetu. Þess vegna er þeirri áskorun beint til yfirvalda að láta þetta óendanlega mikilvæga verkefni sem netvæðing dreifbýlisins er vera í hópi þeirra verkefna sem fremst eru í forgangsröðinni. Sókn er besta vörnin.

Jón Jónsson, þjóðfræðingur og
menningarfulltrúi Vestfjarða