22/12/2024

Hæ og hó og jibbíjei

17. júní var haldinn hátíðlegur í dag á Ströndum og höfðu menn að venju gaman af, þó það hefði mátt vera lítið eitt hlýrra. Ágæt mæting var í skrúðgöngu á Hólmavík og kaffihlaðborð í Sævangi, en fleiri hefðu mátt vera með í sundkeppni Geislans í morgun þar sem Magnús Bragason sigraði örugglega í kappsundi með frjálsri aðferð. Fjörið er reyndar ekki líkt því búið enn á Hólmavík. Nú stendur steikarhlaðborð sem hæst á Café Riis, sundlaugarpartí er rétt að byrja og í kvöld er ball með Heiðu og félögum á Café Riis. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is var að þvælast á Hólmavík í dag og smellti af fáeinum myndum.

Á neðstu myndinni eru menn að elta karamellur – ljósm. Jón Jónsson