22/11/2024

Grunnurinn grafinn að nýju íbúðarhúsi á Finnbogastöðum

Fyrsta skóflustunganStóra stundin er runnin upp á Finnbogastöðum en fyrsta skóflustungan að nýju íbúðarhúsi var tekin í gær. Stefnt að því að húsið rísi nú í haust og að Guðmundur á Finnbogastöðum og fjölskylda haldi jólin í nýju húsi á hinu forna höfuðbóli í Trékyllisvík en gamla húsið brann í miklum eldsvoða í sumar eins og kunnugt er. Hrafn Jökulsson, nágranni Guðmundar, fékk þann heiður að taka fyrstu skóflustunguna, en síðan tók Ásbjörn í Djúpavík við og gróf grunninn með gröfu. Nýja húsið rís rétt fyrir neðan gamla bæjarhólinn á Finnbogastöðum en það verður kanadískt einingahús sem kemur til landsins í september.

Aðeins eru rúmlega tveir mánuðir frá brunanum mikla, 16. júní, þegar ættaróðal Guðmundar Finnbogasonar og allar persónulegar eigur urðu eldi að bráð.

Ótalmargir hafa sýnt Guðmundi og fjölskyldu stuðning í verki, og hefur söfnun Félags Árneshreppsbúa gengið vel. strandir.saudfjarsetur.is minnir á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 og kennitala: 4510892509.

Sjá einnig: www.trekyllisvik.blog.is þaðan sem meðfylgjandi ljósmynd af Ásbirni í Djúpavík og Guðmundi á Finnbogastöðum er tekin við gröftinn.