21/11/2024

Grímsey ST-2 í góðum fiski

Áhöfnin á Grímsey ST-2, sem er dragnótarveiðiskip sem gerir út frá Drangsnesi, lenti heldur betur í lukkupottinum í vikunni. Grímsey fór á sjó aðfaranótt mánudags og kom í land á mánudagskvöld með tæp sjö tonn af stórum fiski eða rúmum átta kílóa meðalþunga á hvern fisk. Aðfaranótt þriðjudagsins fór Grímsey svo aftur á sjó og kom um 16:45 að landi með rúm átta tonn af boltafiski, en þá var um tíu kíló meðalþungi á hvern fisk. Grímseyin var á veiðum austur á Skaga báða dagana. Áhöfnina á Grímsey skipa Friðgeir Höskuldsson sem er skipstjóri og eigandi, Halldór Höskuldsson sem er vélstjóri og Halldór L. Friðgeirsson sem er stýrimaður.

Ljósm. Árni Þór Baldursson