05/11/2024

Grettistak afhjúpað við Gvendarlaug

Bjarnfirðingar reistu um síðustu helgi og afhjúpuðu síðan á sunnudaginn bautastein einn mikinn við Gvendarlaug hins góða á Laugarhóli. Er hann til minningar um þá meðlimi Sundfélagsins Grettis sem byggðu sundlaugina fyrir rúmum sextíu árum. Steinninn sem kallaður er Grettistak var afhjúpaður á sunnudaginn af einum þeirra sem unnu að sundlaugarbyggingunni á sínum tíma, en það er Halldór Ólafsson frá Bakka í Bjarnarfirði. Jón Bjarnason þingmaður segir frá viðburðinum á vefsíðu sinni www.jonbjarnason.blog.is:

"Síðastliðinn sunnudag lá leiðin frá Drangsnesi um Bjarnarfjörðinn að Laugarhóli. Þar var boðað til samkomu og stofnað Hollvinafélag Gvendarlaugar hins góða í landi Klúku og minnst 60 ára afmælis sundlaugarinnar sem var gríðarmikið framtak á sínum tíma og myndi þykja það enn í dag.

Og það var hátíðleg stund þegar einn af þeim sem unnu við sundlaugarbygginguna, Halldór á Bakka, afhjúpaði bautastein sem reistur var til heiðurs „þeirra framsýnu eljumanna sem fyrir réttum 60 árum tókust á hendur það þrekvirki að byggja í sjálfboðavinnu sundlaug fyrir eigin fjármuni í þessu fámenna byggðarlagi."

Framkvæmdir við Gvendarlaug hófust 1943 og var hún tekin í notkun árið 1947. Var um að ræða samstarfsverkefni Sundfélagsins Grettis og Kaldrananeshrepps. Nú hefur verið stofnuð Hollvinasamtök Gvendarlaugar og er ætlunin að gera vel við laugina og ganga frá umhverfi hennar.

Áfram heldur Jón Bjarnason á vefsíðu sinni:

"Mér var sérstök ánægja að vera viðstaddur þessa athöfn enda málið mjög skylt. Faðir minn, Bjarni Jónsson  í Asparvík var einn af hvatamönnum um byggingu sundlaugarinnar í Bjarnarfirði og föðurfólk mitt lagði sitt af mörkum  til verksins á þeim tíma. "Sundlaugin var okkar framlag til sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar á þeim árum", sagði faðir minn stoltur þegar minnst var þessa átaks."

 Grettistak

frettamyndir/2008/580-grettistak3.jpg

frettamyndir/2008/580-grettistak1.jpg

Myndir frá því þegar Bjarnfirðingar komu bautasteininum fyrir – ljósm. Ásdís Jónsdóttir