22/12/2024

Grásteinn í Gettu betur

Grásteinn í ÁrneshreppiEins og sjónvarpsáhorfendur sem fylgdust með Gettu betur í vikunni urðu vitni að var þar spurt um Grástein (Silfurstein) í landi Stóru-Ávíkur í Árneshreppi. Birtar voru myndir af steininum sem Jón G. Guðjónsson í Litlu-Ávík var fenginn til að taka sérstaklega fyrir spurningakeppnina. Að sjálfsögðu mátti ekkert um þetta fréttast fyrr en eftir þáttinn. Steinninn sem er stór, jarðfastur granítsteinn, allmörg tonn á þyngd, er talinn hafa borist til landsins frá Grænlandi með hafís fyrir um það bil 10 þúsund árum. Vissi annað liðið hvernig hann er tilkominn, en hitt giskaði á að um loftstein væri að ræða.

Andrés Indriðason dagskrárgerðarmaður hélt að mynd væri til af Grásteini í safni Sjónvarps, en svo var ekki þegar til kom. Var því haft samband við Jón til að taka myndir og tók hann átta myndir á stafræna myndavél og notaðar voru fjórar í þættinum og tókust mjög vel.