22/12/2024

Göngum saman til móts við nýja tíma

Aðsend grein: Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir
Næsta laugardag göngum við kjósendur til kosninga, þar sem við kjósum fulltrúa til setu á Alþingi til næstu fjögurra ára. Það er mikilvægt að átta sig vel á því hvaða kostir eru í boði og fyrir hvaða málstað fólk býður sig fram, og einnig hvort menn trúi almennt á það að hægt sé að standa við gefin fyrirheit.

Vinstri græn hafa hreinar línur

Þið sem fylgst hafið með stjórnmálum undanfarin ár og nú í aðdraganda kosninga vitið fyrir hvað Vinstrihreyfingin – grænt framboð stendur. Þar er stefnan skýr og fólk þarf ekki að vera hugsa um það hvort breytt sé um áherslur eftir því hvort það er norðaustan- eða suðvestanátt.

Við höfum staðið vörðinn í umhverfis- og velferðarmálum

Mér finnst það tímanna tákn að nú í aðdraganda kosninga vilja ansi margir taka upp þá stefnu sem Vinstri græn hafa alltaf staðið fyrir, m.a. í umhverfis- og  velferðarmálum. Ástæðan er sennilega sú að menn finna fyrir því að kjósendur vilja breytingar í samfélaginu. Kjósendur sætta sig ekki lengur við ójöfnuð og misskiptingu og sjá einnig að náttúruauðlindir skipta okkur höfuðmáli til framtíðar. Það er vel að aðrir stjórnmálamenn skuli sjá að fólkið í landinu vill breyttar áherslur og setji þess vegna þessa málaflokka á dagskrá. En treystir þá fólk ekki best þeim sem mótuðu stefnuna til að leiða breytingar fram til framfara fyrir fólkið í landinu? Við skulum aldrei gleyma því að í landinu okkar búa einstaklingar sem hafa og eiga að hafa skoðun á því hvernig þjóðfélag við viljum til framtíðar, um það munu þeir kjósa í næstu kosningum. Það þarf að bera virðingu fyrir því vali og vinna samkvæmt því en ekki gegn skoðunum manna.

Ferskir straumar

Með nýju fólki koma nýir straumar, nýjar áherslur og nýjar hugmyndir. Það er undir ykkur ágætu kjósendur komið hverja þið veljið til forystu og hverjum þið treystið til að leiða stjórn landsmálanna. Við Vinstri græn erum tilbúin til að leiða þá stjórn og takast á við þá ábyrgð sem því fylgir með ykkar stuðningi.

Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir
skipar 2. sæti VG í Norðvesturkjördæmi