Í umsögnum þeirra sem kusu GóGó píurnar sem Strandamenn ársins 2012 í fyrri umferð kosningarinnar kom fram að GóGó píurar „slógu í gegn“ og „blómstruðu á árinu 2012, en þá gerði sveitin „marga góða hluti“ og „fjölmarga Strandamenn stolta“. Sveitin stóð sig „rosalega vel í öllu sem þau gerðu“, „sigraði Vestfjarða-Samfés í Súðavík og „varð í 3. sæti í Samfés á landsvísu“ þar sem sveitin „stóð sig stórkostlega“. Unga fólkið var „Ströndum til sóma“, enda hefur „svona góður árangur ekki sést áður“.
GóGó píurnar komu svo fram á Aldrei fór ég Suður og „stóðu sig frábærlega“ og „voru æðislegar“, enda eru þær „yndislegar í alla staði“ og hafa „komið Hólmavík á kortið með söng sínum“. Sveitin „kom síðan fram sem Grýlurnar í leiksýningunni Með allt á hreinu og spiluðu líka á Hamingjudögum“. GóGó píurnar eru „rosa rosa flottar“, „ferlega töff“ og „miklir tónlistarsnillingar“, auk þess að vera „flott fyrirmynd“ og „flottur og heilbrigður hópur sem hefur tekið virkan þátt í félagslífinu í samfélaginu“ og haft „alveg rosalega gaman af því“.
Aðrir sem kepptu til úrslita í annarri umferð kosningarinnar að þessu sinni voru Björn Kristjánsson á Drangnesi (Borkó), Ester Sigfúsdóttir á Kirkjubóli og Viðar Guðmundsson í Miðhúsum. Þau fengu öll tilnefningar sínar fyrir framlag til menningar og mannlífs á Ströndum.
Þeir sem hingað til hafa hampað þeim heiðurstitli að vera valdir Strandamenn ársins af samferðamönnum sínum, í þessum skemmtilega leik sem vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hefur staðið fyrir í 9 ár, eru eftirtaldir:
2004 – Sverrir Guðbrandsson eldri á Hólmavík
2005 – Guðbrandur Einarsson frá Broddanesi
2006 – Sandra Dögg Guðmundsdóttir á Drangsnesi
2007 – Ásbjörn Magnússon og Valgerður Magnúsdóttir á Drangsnesi
2008 – Ingibjörg Sigvaldadóttir frá Svanshóli
2009 – Sigurður Atlason á Hólmavík
2010 – Arinbjörn Bernharðsson frá Norðurfirði
2011 – Eva Sigurbjörnsdóttir í Djúpavík
2012 – Gógó píurnar á Hólmavík