05/11/2024

GóGó píurnar eru Strandamenn ársins 2012

645-gogopiur
Talningu er nú loksins lokið í kosningu á Strandamanni ársins 2012, en annað eins firnafár af atkvæðum og kom í hús að þessu sinni, hefur aldrei borist fyrr í þessari kosningu. GóGó píurnar fengu flest atkvæði, en þar er á ferðinni unglingasöngsveit sem var stofnuð á síðasta ári innan vébanda félagsmiðstöðvarinnar Ozon á Hólmavík. Sveitina skipa Brynja Karen Daníelsdóttir, Gunnur Arndís Halldórsdóttir, Margrét Vera Mánadóttir, Sara Jóhannsdóttir sem sungu og Fannar Freyr Snorrason sem spilaði undir. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is óskar þessu unga listafólki hjartanlega til hamingju með titilinn sem þau eiga svo sannarlega skilinn. Þau eru verðugir fulltrúar ungu kynslóðarinnar og fjölmargir Strandamenn eru afar stoltir af þessu frábærlega frambærilega unga fólki.

Í umsögnum þeirra sem kusu GóGó píurnar sem Strandamenn ársins 2012 í fyrri umferð kosningarinnar kom fram að GóGó píurar „slógu í gegn“ og „blómstruðu á árinu 2012, en þá gerði sveitin „marga góða hluti“ og „fjölmarga Strandamenn stolta“. Sveitin stóð sig „rosalega vel í öllu sem þau gerðu“, „sigraði Vestfjarða-Samfés í Súðavík og „varð í 3. sæti í Samfés á landsvísu“ þar sem sveitin „stóð sig stórkostlega“. Unga fólkið var „Ströndum til sóma“, enda hefur „svona góður árangur ekki sést áður“.

GóGó píurnar komu svo fram á Aldrei fór ég Suður og „stóðu sig frábærlega“ og „voru æðislegar“, enda eru þær „yndislegar í alla staði“ og hafa „komið Hólmavík á kortið með söng sínum“. Sveitin „kom síðan fram sem Grýlurnar í leiksýningunni Með allt á hreinu og spiluðu líka á Hamingjudögum“. GóGó píurnar eru „rosa rosa flottar“, „ferlega töff“ og „miklir tónlistarsnillingar“, auk þess að vera „flott fyrirmynd“ og „flottur og heilbrigður hópur sem hefur tekið virkan þátt í félagslífinu í samfélaginu“ og haft „alveg rosalega gaman af því“.

Aðrir sem kepptu til úrslita í annarri umferð kosningarinnar að þessu sinni voru Björn Kristjánsson á Drangnesi (Borkó), Ester Sigfúsdóttir á Kirkjubóli og Viðar Guðmundsson í Miðhúsum. Þau fengu öll tilnefningar sínar fyrir framlag til menningar og mannlífs á Ströndum.

Þeir sem hingað til hafa hampað þeim heiðurstitli að vera valdir Strandamenn ársins af samferðamönnum sínum, í þessum skemmtilega leik sem vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hefur staðið fyrir í 9 ár, eru eftirtaldir:

2004 – Sverrir Guðbrandsson eldri á Hólmavík
2005 – Guðbrandur Einarsson frá Broddanesi
2006 – Sandra Dögg Guðmundsdóttir á Drangsnesi
2007 – Ásbjörn Magnússon og Valgerður Magnúsdóttir á Drangsnesi
2008 – Ingibjörg Sigvaldadóttir frá Svanshóli
2009 – Sigurður Atlason á Hólmavík
2010 – Arinbjörn Bernharðsson frá Norðurfirði
2011 – Eva Sigurbjörnsdóttir í Djúpavík
2012 – Gógó píurnar á Hólmavík