05/11/2024

Góð þátttaka í kosningu á Strandamanni ársins 2011

Ljósm. Ingimundur PálssonGóð þátttaka hefur verið í kosningu á Strandamanni ársins 2011, en nú stendur yfir síðari umferð þeirrar kosningar. Þá er kosið hér á vefnum á milli þeirra þriggja sem fengu flestar tilnefningar í fyrri umferð. Það eru Arnar S. Jónsson tómstundafulltrúi Strandabyggðar, Eva Sigurbjörnsdóttir hótelstjóri á Hótel Djúpavík og Jón H. Halldórsson landpóstur á Hólmavík sem keppa um titilinn og þann heiður sem fylgir. Kjósa má undir þessum tengli, en hér fyrir neðan má sjá hvað þeir sem tilnefndu þessi þrjú höfðu fallegt um þau að segja.

Arnar S. Jónsson:
Arnar Jónsson tók við nýju starfi tómstundafulltrúa í Strandabyggð á árinu 2011 og lét jafnframt af framkvæmdastjórn Sauðfjárseturs á Ströndum. Arnar hefur lengi verið virkur í menningarlífinu á Ströndum. Í umsögnum með tilnefningum segir meðal annars að framkvæmdastjórn hans á Hamingjudögum á Hólmavík 2011 hafi verið frábær og "dagskráin skemmtilega blönduð" og við allra hæfi. Leikstjórn á leikritinu "Með táning í tölvunni" síðastliðið vor er líka nefnd til sögu og sagt að það hafi verið "hrikalega skemmtilegt leikrit".

Kennslu Arnars í kvikmyndavali í Grunnskólanum á Hólmavík er hrósað í tilnefningum, stjórnun á félagsmiðstöðinni Ozon og þáttur hans í að landa aðalverðlaunum sem kvikmyndavalið vann í myndbandakeppni 66°Norður. Jákvæðni, drifkrafur og víðsýni eru sagðir kostir Arnars, einnig að hann "taki öllum hugmyndum vel" og sé "fyndinn og skemmtilegur", "virkilega duglegur", "æðislegur" og "algjör snillingur".

Eva Sigurbjörnsdóttir:
Eva Sigurbjörnsdóttir er hótelstjóri á Hótel Djúpavík og situr í sveitarstjórn Árneshrepps. Eva hefur ásamt Ásbirni manni sínum rekið hótel í Djúpavík frá árinu 1985 og þau eru frumkvöðlar á sviði ferðaþjónustu á Ströndum. Í umsögnum er sagt "ótrúlegt að horfa á kraftinn í henni á hótelinu" og að hún "gefi sig alla í starf sitt sem hótelstýra". Hótelið sé "frábært og vel rekið" og Eva hafi "aukið hróður Strandanna um allan heim með gestrisni sinni", þar sem hún búi "gestum sínum og alls svæðisins heimili að heiman".

Eva er sögð "sveitarsómi" sem eigi sannarlega skilið að vera kjörin Strandamaður ársins, hún hafi "komið Ströndum á kortið". Hún hafi unnið vel fyrir Árneshrepp í gegnum tíðina og barátta fyrir bættum samgöngum og lífsgæðum Árneshreppsbúa er nefnd sérstaklega. Eva er sögð "dugnaðarforkur og hugsjónamanneskja", "mjög stoltur Vestfirðingur", "sterk Strandakona" og "frábær fjölskyldumanneskja". Hún hafi sýnt "ótrúlega elju og styrk í því að efla líf, menningu og atvinnulíf á Ströndum".

Jón H. Halldórsson:
Jón Halldórsson frá Hrófbergi er landpóstur á Hólmavík, ekur pósti til íbúa sunnan úr Kollafirði og norður í Bjarnarfjörð. Hann er tilnefndur sem Strandamaður ársins 2011 fyrir "frábærar og fjölbreyttar myndir" sem hann kemur hratt og vel á framfæri á Hólmavíkurvefnum sínum – 123.is/holmavik – sem er vefur "sem margir fara inn á daglega". Ljósmyndir Jóns eru "margar og frábærar" og þær eru "mikið skoðaðar utan Stranda og innan og mörgum mikils virði" segir í tilnefningum.

Jóni er hrósað sérstaklega fyrir dugnað og elju við að færa Strandamönnum heima og heiman "fréttir og myndir úr sýslunni". Hann sé eins konar "tenging brottfluttra Strandamanna við heimaslóðir". Á árinu 2011 setti Jón einnig upp sýningu á myndum sínum í veitingasal Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Hólmavík og hélt "magnaða tónleika á Hamingjudögum" annað árið í röð. Í tilnefningum segir að "hann ætti fyrir löngu að vera búinn að vinna titilinn Strandamaður ársins".