Fréttavefurinn strandir.saudfjarsetur.is óskar öllum Strandamönnum nær og fjær gleðilegs sumars og hvetur menn til að njóta lífsins í sumar, fara í ferðalög og skemmta sér með vinum og ættingjum. Blíðviðri var á Ströndum í dag, eiginlega hálfgert drottins dýrðar koppalogn, eins og sést á meðfylgjandi myndum sem Jón Jónsson tók á morgungöngunni. Náttúran er öll að taka við sér og hlýtt var í dag í sólinni. Sjálfsagt hafa grillin verið dregin fram á mörgum heimilum á Ströndum og börnin skemmta sér við útileiki.
Krían er sögð vera komin á Höfn í Hornafirði, en við Strandamenn vitum að hingað kemur hún ekki fyrr en 10. maí. Sjálfsagt hefur þetta verið mjósleginn hettumáfur þarna syðra. Hrossagaukar og teistur og tjaldar láta hins vegar í sér heyra, gæsirnar rífast hástöfum og tjaldurinn við Sævang er farinn að undirbúa varpið.
Ljósm. Jón Jónsson