30/10/2024

Gegnir tekinn í notkun

Héraðsbókasafn Strandasýslu á Hólmavík skipti í síðustu viku um útlánakerfi og tók í notkun bókasafnskerfið Gegni. Kerfið má skoða á slóðinni www.gegnir.is og þar er hægt að fletta því upp hvort einstakar bækur eru til á Hólmavík eða ekki. Áður var bókasafnskerfið Embla í notkun á Héraðsbókasafninu, en það var úrelt og enga þjónustu við það að fá lengur. Jafnframt er unnið að skráningu á öllum safnkostinum í Gegni og gengur hún vel, búið er að skrá allar fræðibækur, landafræði og sögubækur, bókmenntafræði, ljóð og leikrit, ævisögur og flestar íslenskar skáldsögur. Eftir er að skrá erlendar skáldsögur og barnabækur.

Ester Sigfúsdóttir bókavörður segir að eftir að skráningu lýkur á safninu sjálfu, þurfi að fara í gegnum geymslur sem eru á víð og dreif um Grunnskólann á Hólmavík, en plássleysi háir starfsemi bókasafnsins nokkuð. Einnig væri mikilvægt að skrá önnur bókasöfn á Ströndum í Gegni svo menn sjái hvaða bækur eru aðgengilegar á svæðinu.

Nú er jólabækurnar byrjaðar að koma á safnið og þegar Bókatíðindin koma út um miðjan mánuðinn fara þær að birtast á safninu af fullum krafti, að sögn Esterar. Bókasafnið kaupir um það bil þriðjung af nýjum bókum sem út koma á ári hverju. Allir geta orðið félagar í bókasafninu, þurfa aðeins að mæta á staðinn og skrá sig og fá síðan rukkun um árgjald eftir á.

Safnið er opið alla skóladaga frá 8:40-12:00 og einnig á fimmtudagskvöldum frá 20:00-21:00.