22/12/2024

Gáttir – þróunarverkefni í menningartengdri ferðaþjónustu

Á næstu dögum og vikum standa Impra á Nýsköpunarmiðstöð og Ferðamálastofa fyrir vinnufundum til að kynna nýtt verkefni í menningartengdri ferðaþjónustu á landsvísu. Verkefnið hefur fengið nafnið Gáttir – þróunarverkefni í menningartengdri ferðaþjónustu. Um er að ræða verkefni á vegum Iðnaðarráðuneytis unnið af Impru á Nýsköpunarmiðstöð og Ferðamálastofu í samvinnu við Háskólann á Hólum. Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir geta sótt um þátttöku í verkefninu til 14. júlí næstkomandi.

Þróunarverkefni þau sem hér um ræðir eru á sviði vöruþróunar í ferðaþjónustu; þeim er einkum ætlað að búa til nýja kosti sem haft geta áhrif á ferðatilhögun eða dvalarlengd ferðamanna en einnig að svara eftirspurn sem þegar er til staðar og hefur ekki hingað til verið sinnt. Horft er annars vegar til þess að efla þá menningartengdu ferðaþjónustu sem fyrir hendi er og hins vegar að því að kynna ný sóknarfæri til frekari uppbyggingar í héraði.

Tilgangur verkefnisins er að efla ferðaþjónustu með því að vinna úr svæðisbundnum menningarverðmætum, bæði í einstökum héruðum og á landsvísu. Ennfremur að efla skilning og samstarf milli héraða og innan héraðs á því að þróa vöru og þjónustu byggða á menningu og menningararfi landsbyggðarinnar. Ferðaþjónustufyrirtæki eða hópar fyrirtækja, sem taka þátt fá aðstoð við stjórnun vöruþróunarverkefnis í menningartengdri ferðaþjónustu.  Með verkefninu er verið að auka þekkingu á gæðum og þróun nýrrar vöru og/eða þjónustu.

Um er að ræða 2ja ára stuðningsverkefni í vöruþróun menningartengdrar ferðaþjónustu.  Þátttaka í verkefninu er opin fyrirtækjum, einstaklingum og hópum fyrirtækja og einstaklinga sem óska eftir að vinna saman.  Á umsóknum þarf að koma fram upplýsingar um umsækjendur og verkefnishugmyndir þeirra.  Umsóknir verða rafrænar og aðgengilegar á vefsíðu Impru. 

Með þessu verkefni er stefnt að því að auka framboð á arðbærri vöru/þjónustu í menningartengdri ferðaþjónustu og stuðla að faglegum lausnum við vöruþróun í greininni.  Gert er ráð fyrir að um nokkurs konar klasasamstarf fyrirtækja verði að ræða ýmist svæðisbundið samstarf eða samstarf á landsvísu á faglegum grundvelli.

Kynningarfundir framundan:

Kynningarfundir verða á eftirtöldum stöðum:
Vestmannaeyjar – 10  júní Café María kl. 13:00-16:00
Ísafjörður – 16. júní Hótel Ísafjörður kl. 09:30-12:30
Stykkishólmur – 18. júní Hótel Stykkishólmur kl. 11:00-14:00
Varmahlíð – 19. júní Hótel Varmahlíð kl. 10:00-13:00
Húsavík – 20. júní Fosshótel Húsavík kl. 09:00-12:00
Seyðisfjörður – 23. júní Hótel Aldan kl. 13:30-16:30
Höfn – 24. júní Hótel Höfn kl. 13:00-16:00

Á fundunum fjalla sérfræðingar um menningartengda ferðaþjónustu, vöruþróun og frumkvöðlar í uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu segja frá reynslu sinni, auk þess sem verkefnið verður kynnt ítarlega. Fundirnir eru opnir öllum  áhugasömum um vöruþróun á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu.

Dagskrá:
1. Kynning á verkefni – Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, Impru á Nýsköpunarmiðstöð
2. Vöruþróunarferlið  – Heiður Björnsdóttir, ParX
3. Áfangastaðir í menningartengdri ferðaþjónustu – Háskólinn á Hólum
4. Uppbygging Landnámsseturs – Kjartan Ragnarsson, Landnámssetrinu
5. Spurningar og umræður  

Markmið og tilgangur verkefnisins:  

Markmið
# Að fjölga arðbærum lausnum í menningartengdri ferðaþjónustu.
# Að vinna úr sérkennum eða hinu einstaka framlagi viðkomandi staða til menningarinnar.
# Að auka þekkingu á þróun nýrrar þjónustu.
# Að auka skilning og efla samstarf milli héraða og innan héraðs á hinni margvíslegu menningararfleifð landsbyggðarinnar.
# Að aðstoða ferðaþjónustufyrirtæki eða hópa fyrirtækja við stjórnun vöruþróunarverkefnis – lögð verður áhersla á þróun nýrra vara eða þjónustu í menningartengdri ferðaþjónustu
# Að vinna að faglegum úrlausnum við þróun viðkomandi þjónustu.
# Að koma nýrri þjónustu á markað
# Að verkefnin skili fyrirtækjunum það miklum ávinningi að kostnaðurinn við vöruþróunina skili sér til baka innan 2 – 3 ára frá því að sala hefst.

Forsendur þess að verkefni geti talist þróunarverkefni á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu:
# Þjónustunni eða vörunni er ætlað að hafa í för með sér ferð, eða áhrif á ferðir ferðamanna. Þannig sé aðdráttaraflið skilgreint, svo og nýbreytnin.
# Varan/þjónustan þarf ennfremur að beinast með skýrum hætti að ferðamönnum, innlendum eða erlendum (frekar en að vera almennur menningarviðburður í héraði).
# Varan/þjónustan byggir á menningarlegri sérstöðu eða sérkennum viðkomandi staðar.
# Æskilegt er að varan/þjónustan sé grundvölluð á klasasamstarfi þar sem fleiri en einn aðili komi að málum hvort sem um er að ræða innan héraðs eða á faglegum grunni.
# Það er lykilatriði fyrir menningartengda ferðaþjónustu að sá sem stendur fyrir henni verði að vera meðvitaður um að hann sé að byggja upp slíkan rekstur, vinni eftir áætlunum að skilgreindum markmiðum, auk þess sem sá þarf að skilgreina starfsemina sem ferðaþjónustu og sjálfan sig sem ferðaþjónustuaðila.
# Til að um menningartengda ferðaþjónustu geti verið að ræða þarf einhver sala að fara fram og vara að verða til sem afurð verkefnisins.

Faglegar forsendur verkefna
Æskilegt er að einhver eftirtalinna faglegra forsendna séu hluti af verkefninu (hér er ekki um tæmandi lista að ræða:
# Strandmenning, þar sem byggt er á sérkennum svæða sem byggt hafa afkomu sína á sjávarnytjum.
# Sveitamenning, sem grundvallast á sögu og menningu í dreifbýli, nytjum o.s.frv.
# Heiðamenning, sem segir á sama tíma búsetusögu
# Þjóðsagnaarfur
# Sagnaarfur okkar, Íslendingasögur
# Sambúð manns og náttúru
# Nútíminn
# Tónlist
# Myndlist
# Byggðasaga

Verkefnið er opið til umsóknar til 14. júlí 2008. Umsóknareyðublað má nálgast undir þessum tengli. Verkefnið er til tveggja ára.

Frekari upplýsingar veita Sigríður Ó. Kristjánsdóttir verkefnastjóri hjá Impru á Nýsköpunarmiðstöð í síma 450-4050 og sirry@nmi.is og Alda Þrastardóttir verkefnastjóri hjá Ferðamálastofu í síma 464-9990 og alda@icetourist.is. Einnig á vefjunum www.nmi.is og www.ferdamalastofa.is.