23/12/2024

Gárungarnir flagga í hálfa

Þegar fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is var á morgungöngu rak hann augun í að flaggað var í hálfa stöng hjá hreppnum Strandabyggð og Sparisjóðnum sem deila húsnæði á Hafnarbraut á Hólmavík. Í fyrstu taldi fréttaritari næsta víst að stýrivextir Seðlabankans og aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálunum væru ástæðan, en þegar nær dró sáust ummerki um að hér hefðu gárungar verið að verki og höfðu þeir skilið eftir sig ölglas á vettvangi. Bæði náðust fingraför af glasinu og DNA-sýni úr munnvatni á botni þess, þannig að væntanlega leysist málið á næstunni með dyggri aðstoð ríkislögreglustjóra og sérsveitarinnar.