Nú þegar ísbirnir eru í vaxandi mæli farnir að ferðast til landsins er ekki úr vegi að rifja upp gömul húsráð af Ströndum um hvernig best er að bregðast við þegar maður rekst á ísbjörn á förnum vegi. Helsta bjargráðið mun vera að hlaupa eins og fætur toga og koma sér inn í hús hið snarasta. Heppilegt getur verið að vera þá jafnan í samfylgd með einhverjum sem hleypur hægar en maður sjálfur.
Annað heillaráð sem öllum börnum á Ströndum er ungum kennt, er að vera ávallt í úthverfum fingravettlingum þegar hafís liggur við landið eða þegar birnir eru á ferðinni. Þegar ísbjörn kemur síðan æðandi á eftir manni er best að taka strax á rás til bæja, en klæða sig úr öðrum úthverfa fingravettlingnum á hlaupunum. Þegar maður er farinn að heyra andardráttinn í birninum fyrir aftan sig á maður að fleygja vettlingnum yfir öxlina og hlaupa áfram sem fætur toga. Sest þá ísbjörninn undantekningarlaust niður og snýr öllum þumlunum við, áður en hann heldur áfram að elta mann. Síðan gerir maður það sama með hinn vettlinginn og sleppur í skjól meðan bjössi baksar við þumlana.
Víða á Ströndum hafa verið settar upp svokallaðar ísbjarnarhræður meðfram ströndinni og á meðfylgjandi mynd má sjá Ófeig ísbjarnarhræðu sem vaktar Steingrímsfjörðinn. Virðist þetta hafa skilað góðum árangri, því allir ísbirnir sem stigið hafa á landi síðustu 20 árin hafa komið á land hinu megin við Húnaflóann.