22/12/2024

Galdramenn smíða nýja heimasíðu

Unnið er að gerð nýrrar heimasíðu Galdrasýningar á Ströndum, galdrasyning.is, en það var orðið nauðsynlegt að koma henni í gagnagrunn til að geta haldið utan um allt efnið sem safnað hefur verið í sarp Strandagaldurs. Fyrir valinu var vefumsjónarkerfið Mambo sem hentar vel til að halda utan um alla flokka fyrir jafn yfirgripsmikinn vef. Við tækifærið verður bætt við fleirum flokkum og talsverðu efni að auki bætt inn á Viskubrunninn. Gamla síðan er ennþá í fullu gildi en ekki er gert ráð fyrir að nýja síðan verði formlega opnuð fyrr en eftir 1-2 mánuði. Heimasíða Galdrasýningar á Ströndum fær upp undir 40.000 gesti á hverju ári en stefnan er að margfalda þann fjölda á næsta ári með tilkomu nýju síðunnar og nýta vefinn til enn frekari markaðssóknar.

Efni inn á Viskubrunninn verður stórlega aukið og nú þegar hefur verið bætt talsverðu efni þar inn. Stór hluti gesta á síðuna eru nemendur af öllum skólastigum um víða veröld en mörg hundruð tenglar eru inn á hana víðsvegar frá. Að auki verður bætt við umfjöllun um sýningarnar og verkefnin sem Strandagaldur vinnur að árið um kring ásamt sem öflug kynning verður á ferðaþjónustu í héraðinu.

Eldri síðan sem hefur hlotið margskonar viðurkenningar verður haldið jafnframt úti, en útilokað er að loka henni alfarið vegna fjölmargra tenginga inn á hana hér og þar, en henni verður síðan breytt þannig að við fyrsta val eftir að einhversstaðar er komið inn á hana, þá flytjist gesturinn á nýju síðuna.

Akkurinn við smíði nýju síðunnar er einnig sá að mikið einfaldara verður að bæta efni inn á hana á hina fjölmörgu flokka um galdramál og sögu 17. aldar á Íslandi og rannsóknum tengt því sem þar verður að finna.