Galdraráðstefnan í Vardö í N-Noregi stendur sem hæst um þessar mundir og í þessum skrifuðum orðum sitja ráðstefnugestir við höfnina í Vardö og fylgjast með galdrabrennu. Það er þó undir öðrum formerkjum en brennur fyrr á öldum og er gert til að minnast ofsóknanna á 17. öld. Magnús Rafnsson fulltrúi Strandamanna á ráðstefnunni sem heldur þar fyrirlestur í fyrramálið, fékk þann heiður að stjórna brennunni og fórst hlutverk böðulsins vel úr hendi. Í samtali við Arnt Th. Johansen eins skipuleggjanda ráðstefnunnar sagði hann að það hefði aldrei komið annað til greina en að fá alvöru galdramann af Ströndum til að stjórna minningarathöfninni.
Þetta er þriðja ráðstefnan um galdramál í Vardö en stefnt er að því að þar verði byggt upp safn um norsk galdramál í framtíðinni með fulltingi Strandagaldurs.
Það er von á myndum frá Heksekonferansen og þætti Magnúsar Rafnssonar í Vardö strax eftir helgina. Þangað til yljum við okkur við eldinn frá síðasta ári.
Ljósm.: Sigurður Atlason