22/12/2024

Furðuleikar á sunnudag

Á morgun, sunnudag, verða haldnir Furðuleikar 2005 á Sauðfjársetrinu í Sævangi og hefjast kl. 14:00. Jón Jónsson framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins segist vonast til að töluvert af fólki mæti á svæðið. Félagar í Leikfélagi Hólmavíkur setja svip á hátíðina og vonandi mæta fleiri í viðeigandi búning. Gestir og gangandi keppa í alls konar furðugreinum. „Við ætlum í vísbendingaleik á safninu, keppum í trjónuhlaupi og fílafótbolta, öskrum og afturgöngum, svo eitthvað sé nefnt," sagði Jón í samtali við fréttaritara. „Svo er líka ætlunin fara í stórfiskaleik og keppa í girðingastaurakasti, auk þess sem við ætlum að kynna knattleikinn Hringlanda sem vísbendingar eru um að iðkaður hafi verið á Ströndum fyrr á öldum." Kaffihlaðborð verður í kaffistofunni Sævangi kl. 14-18 og allir eru velkomnir á Furðuleikana.