22/12/2024

Furðufiskar á Ströndum

580-furdufiskurUndanfarna daga hefur mjög orðið vart við furðulega fiska í fjörum á Ströndum. Nokkra slíka hefur rekið á fjörur norður í Árneshreppi og Bjarnarfirði, en einnig hefur fiskurinn veiðst hjá sjómönnum á fiskimiðum á Húnaflóa, en þó aldrei komið lifandi úr hafi. Sævar Benediktsson hjá Særoða á Hólmavík hefur fengið nokkra af þessum fiskum í hús og telur hann að þarna sé kominn svokallaður langeðlufiskur (aprimanus fistus), sem er tiltölulega sjaldséður miðsjávarfiskur sem á venjulega heimkynni í öllu hlýrri sjó. Er fiskurinn á stærð við síld. Hefur Sævar sent nokkra fiska til Náttúrufræðistofnunar til greiningar, en þar á bæ telja menn að þessi óvenjulegi reki geti tengst hafís á Ströndum á dögunum.

Björn Pálsson, bóndi í Þorpum í Tungusveit, kom við á ritstjórnarskrifstofu strandir.saudfjarsetur.is nú í morgun eftir að hafa fundið tvo slíka fiska á Gálmaströnd. Við hér á strandir.saudfjarsetur.is vilja gjarnan fá fleiri upplýsingar um það hvort þessi furðufiskur leynist víðar í fjörum á Ströndum, enda er hér um nokkuð einstakan fund að ræða ef rétt er til getið um uppruna fisksins.
580-furdufiskur
Langeðlufiskurinn – ljósm. Sævar Benediktsson