22/11/2024

Fundur um söguskilti á Hólmavík

Menningarmálanefnd Strandabyggðar er um þessar mundir að ráðast í verkefni um uppsetningu söguskilta á Hólmavík. Verkefnið fékk styrk frá Pokasjóði verslunarinnar síðasta haust að upphæð kr. 500.000.- og nú er komið að því að hrinda því í framkvæmd, en stefnt er að því að þau verði komin upp í þorpinu nú í vor. Menningarmálanefnd hefur af þessu tilefni blásið til fundar um söguskiltin miðvikudaginn 20. febrúar kl. 20:00. Þeir sem vilja mæta á fundinn þurfa að skrá þátttöku sína í netfangið addibro@jonsson.is fyrir þriðjudaginn 19. janúar, en einnig hvetur nefndin þá sem kunna að hafa hugmyndir um staðsetningu slíkra skilta að senda þau í þetta sama netfang.

Stefnt er að því að setja upp u.þ.b. átta skilti víðsvegar um bæinn á stöðum þar sem aðgengi fólks á öllum aldri er tryggt. Hugmyndin er að skiltin, sem verða bæði á íslensku og ensku, muni skýra t.d. frá athyglisverðum stöðum, atvinnulífi, menningarminjum, sérkennum Hólmvíkinga, þjóðtrú, skemmtisögum úr þorpinu, sögu gamallra húsa og merkum atburðum sem orðið hafa á svæðinu, svo fátt eitt sé nefnt. Þeim er ætlað að vera skemmtileg og fræðandi, auk þess að hvetja ferðamenn og gesti Hólmavíkur til gönguferða um bæinn og fræða þá um leið um margbrotna sögu staðarins frá ýmsum hliðum. 

Nokkrar hugmyndir hafa komið fram um staðsetningar á skiltunum. Í því sambandi hafa verið nefnd svæði og staðir eins og Brennuhóll, Riis-hús og Bragginn, Plássið, gamli barnaskólinn, Kópnesið, Klifið, fæðingarstaður Stefáns frá Hvítadal, Brandskjól og margt fleira. Áhugasamir og hugmyndaríkir aðilar eru hvattir til að koma með tillögu að eins mörgum stöðum og þá lystir, og senda í netfangið addibro@jonsson.is. Menningarmálanefndin segir að lokum í tilkynningu sinni um málið að hún telji að skiltagerðin sé mikilvægt og skemmtilegt innlegg í uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu á svæðinu þar sem áhersla er lögð á að miðla menningararfinum, upplýsingum og fróðleik með vönduðum hætti til ferðamanna á öllum aldri.