Á vef Leiðar ehf – www.leid.is – kemur fram að fyrirtækið fundaði í dag með fulltrúum þeirra fjögurra sveitarfélagana sem hafa lýst yfir áhuga á að vinna að flýtifjármögnun vegar um Arnkötludal og Gautsdal. Þessi sveitarfélög eru Hólmavíkurhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Súðavíkurhreppur og Ísafjarðarbær. Þetta var fyrsti formlegi fundur Leiðar ehf. með sveitarfélögum um þau áform að flýta lagningu vegarins. Lagt var fram minnisblað um hver staða mála væri og kom þar fram að næst lægi fyrir að ráðast í hönnun vegarins, enda kæmi ekki fram mikil andstaða við umhverfismatið.
Í fréttinni á www.leid.is kemur fram orðrétt:
"Engar formlegar ákvarðanir voru teknar á fundinum, aðeins var farið yfir stöðu mála og næstu skref rædd. Var við það miðað að næst lægi fyrir að funda með vegamálastjóra eða fulltrúa hans um stöðu mála í ljósi þess að Leið ehf. hefur lýst yfir áhuga sínum á áframhaldandi vinnu við undirbúning veglagningarinnar meðan samgönguráðherra og vegamálstjóri hafa gert tillögu um að Vegagerðin kaupi þá vinnu sem fram hefur farið á vegum Leiðar ehf. Fram kom að fulltrúar sveitarfélaganna hefðu ekki umboð til að skuldabinda sveitarfélögin á nokkurn hátt á þessu stigi. Auk þess að fara ítarlega yfir málin og husanleg næstu skref var við það miðað að fundur Leiðar ehf. með vegamálastjóra eða öðrum fulltrúum Vegagerðarinnar yrði við fyrsta tækifæri og að sveitarfélögunum sem fulltrúa áttu á þessum fundi gæfist kostur á að senda sinn eða sína fulltrúa á þann fund sem áheyrnarfulltrúa. Í framhaldi af þeim fundi kæmi í ljós hvert framhald málsins yrði.
Af hálfu Leiðar ehf. sat fundinn Jónas Guðmundsson, formaður stjórnar félagsins. Þá sat fundinn Ásdís Leifsdóttir, sveitarstjóri á Hólmavík, sem einnig á sæti í stjórn Leiðar ehf. Frá Hólmavíkurhreppi sátu fundinn einnig Haraldur V.A. Jónsson, oddviti og Eysteinn Gunnarsson, hreppsnefndarmaður. Af hálfu Súðavíkurhrepps sat fundinn Ómar Jónsson, sveitarstjóri og af hálfu Ísafjarðarbæjar Guðni Geir Jóhannesson, forseti bæjarstjórar og loks af hálfu Bolungarvíkurkaupstaðar Elías Jónatansson, forseti bæjarstjórnar og Sölvi Sólbergsson, formaður bæjarráðs."