22/12/2024

Fuglamerkingar á Ströndum í sumar

320-teist1

Jón Hallur Jóhannsson og Björk Guðjónsdóttir hafa í áratugi stundað rannsóknir á fuglum á Ströndum og merkt fjölda fugla af ýmsum tegundum. Í sumar var umtalað víða um land að varp hefði víða gengið illa og hið sama á við á Ströndum. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hefur fengið yfirlit yfir teistu- og kríumerkingar í sumar frá þeim Jóni Halli og Björk. Hér á eftir fylgir skýrsla þeirra:

Kría

Fórum yfir öll helstu kríuvörp frá Hrútafirði að Steingrímsfirði dagana 22.-27. júlí, en Björn í Bakkagerði veitti okkur upplýsingar um ástand varpsins þar.

Alls fundust 115 kríuhreiður. Egg voru í öllum nema 5 þar sem nýskriðinn ungi var, en í þeim hreiðrum virtist aðeins hafa verið eitt egg. 1 egg var í 87,8% hreiðra. 2 egg voru í 12,2% hreiðra (kríur verpa yfirleitt 2 eggjum og stundum 3). Einn ungi merktur (285 í fyrra).

Geta má þess að á sama tíma í fyrra, sem var mjög gott ungaár, var fjöldi fleygra unga í öllum þessum vörpum. Veruleg seinkun virðist því hafa orðið á kríuvarpi og vafasamt hvort nokkur ungi hafi komist upp. Það hve mikill fjöldi hreiðra var með einu eggi gæti bent til skorts á æti, fyrir og um varptíma, þar sem fuglarnir orki ekki að mynda nema eitt egg.

Þetta er samt ekkert einsdæmi. Árin 1998, 2002, 2006 og 2008 voru einnig mjög léleg hjá kríunni, sérstaklega 2002 þegar fáir eða engir ungar komust upp á Ströndum.

Teista

Fórum yfir vörpin frá Skeljavík að Broddanesi dagana 23.-25. júlí. Alls merktum við 76 unga og 8 fullorðna fugla sem er verulega minna en í meðalári. Í fyrra (2010) merktum við í sömu vörpum 263 unga og munar þar 30%. Áberandi var hve margar holur voru ekki í ábúð og yfirgefin egg í mörgum. Ungar voru almennt yngri en í fyrra (ca ½ mán miðað við þyngd) sem bendir til verulegrar seinkunar varps eða truflunar á varptíma.

Í Traðarnesi við Broddanes var t.d. aðeins ein hola í ábúð af 60 og í Víðidalsárhólma fannst engin hola í ábúð af 14 þekktum.

Rita

Við höfum fylgst með rituvarpi í Stigaklett sem hefur verið í hægum vexti frá 1987. Í fyrra voru þar 62 hreiður með ungum. Nú hafði orðið algert hrun. Aðeins 3 hreiður með ungum og einn fugl lá á eggjum.

Björk og Jón Hallur

bottom

natturumyndir/640-teista2.jpg

Teista á Kirkjubóli ber æti í ungana – ljósm. Jón Jónsson