22/12/2024

Frumvarp að fjárhagsáætlun Hólmavíkurhrepps

Fjárhagsáætlun er nú til umræðu í hreppsnefndFrumvarpi að fjárhagsáætlun Hólmavíkurhrepps var vísað til annarrar umræðu án teljandi athugasemda á hreppsnefndarfundi sem haldin var í gær, þriðjudag. Var það að meginhluta birt í rauntölum ársins 2004, með útkomuspá ársins 2005, þar sem reikningar þess árs hafa ekki verið endurskoðaðir. Í frumvarpinu er boðað áframhaldandi aðhald í öllum rekstri. Lagt er upp með að halda þjónustustigi sveitarfélagsins á svipuðum nótum og verið hefur undanfarið. Varðandi laun og launatengd gjöld, sem er stór hluti af útgjöldum sveitarfélagsins, er gerður sá fyrirvari að launaskrið geti orðið á árinu vegna samninga Reykjavíkurborgar í byrjun árs. Erfitt er þó að gera sér grein fyrir hversu mikil sú hækkun verður eins og málum er háttað nú.


Frumvarpinu sem rætt var í hreppsnefnd í dag fylgdi einnig þriggja ára áætlun, þar sem fram kemur að vænta má batnandi rekstrarniðurstöðu á árunum 2007-2009, og að þá verði farið að gæta verulega minnkandi skulda sveitarfélagsins. Þess ber að geta að undirbúningur fyrir kosningar um sameiningu Broddanes- og Hólmavíkurhreppa stendur yfir og verði sameiningin samþykkt má gera ráð fyrir að kosið verði í sameinuðu sveitarfélagi á komandi vori.