22/12/2024

Frítt í sund fyrir 16 ára og yngri á Drangsnesi

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps samþykkti á síðasta fundi sínum að framvegis kosti ekkert fyrir börn yngri en 16 ára að fara í sund á Drangsnesi. Þetta kemur fram á vefnum www.drangsnes.is. Vonast sveitarstjórnin til að þetta auki áhuga þeirra og efli þau í sundíþróttinni, en holl og góð hreyfing er öllum nauðsynleg og ekki síst börnum. Sundlaugin á Drangnesi er opin þriðjudaga, miðvikudaga og föstudaga kl. 16-19 og laugardaga og sunnudag kl. 14-17. Lokað er á mánudögum og fimmtudögum í vetur.

Verið er að bæta aðstöðu fyrir fatlaða til að sækja sund á Drangsnesi með því að setja upp sérsturtu með betra aðgengi en almennu sturturnar hafa. Þá hafa bæst við tæki í þreksalinn og er hann opinn á sama tíma og sundlaugin. Er mikill áhugi á að nýta tækin þar til að koma sér í betra form.

Frétt af www.drangsnes.is