22/12/2024

Friðaðar kirkjur í Húnavatnsprófastsdæmi

Nú um helgina er framundan opnun sýningarinnar: Friðaðar kirkjur í Húnavatnsprófastsdæmi, en hún verður opnuð á Þingeyrum sunnudaginn 30. júlí kl. 14.00 í nýju þjónustu- og safnaðarheimili þar á staðnum, en nú er verið að leggja lokahönd á byggingu þess. Tilefni sýningarinnar nú er útkoma tveggja binda rits um friðaðar kirkjur í Húnavatnsprófastsdæmi, en á meðal þeirra eru Kollafjarðarneskirkja, Staðarkirkja, Kaldrananeskirkja og Árneskirkja á Ströndum. 


Bækurnar eru hluti af ritröðinni Kirkjur Íslands, sem unnið hefur verið að undanfarin ár í samvinnu Húsafriðunarnefndar, Biskupsstofu, Fornleifaverndar, Þjóðminjasafns og Byggðasafns Skagfirðinga. Á Þingeyrum verður kirkjum í Skagafirði einnig gerð skil, en tvö bindi um Skagafjarðarprófastsdæmi komu út á síðasta ári.  

Á sunnudaginn er ætlunin að fagna þessum áfanga og kynna bækurnar, opna sýninguna og skoða þetta fallega hús sem þarna er risið í fylgd Guðrúnar Jónsdóttur arkitekts hússins. Þór Magnússon fyrrverandi þjóðminjavörður og einn aðalhöfundur bókanna um kirkjur í Húnavatnsprófastsdæmi mun fjalla í stuttu erindi um kirkjugripi. Þorsteinn Gunnarsson formaður Húsafriðunarnefndar mun hafa nokkur orð um vinnu við ritverkið og opna sýninguna. Allir eru hjartanlega velkomnir.