22/12/2024

Fréttir frá ársþingi HSS

Guðjón Þórólfsson hefur m.a. náð góðum árangri í hástökkiÁrsþing Héraðssambands Strandamanna (HSS) var haldið á dögunum og var Jóhanna Ása Einarsdóttir þar endurkjörin formaður HSS. Með henni í stjórn eru Þorsteinn Newton, Aðalbjörg Óskarsdóttir, Birkir Þór Stefánsson og Ingibjörg Birna Sigurðardóttir. Íþróttamaður HSS 2007 var kjörinn Guðjón Þórólfsson og hvatningarbikar sambandsins fékk Ragnar Bragason sem hefur um langt árabil unnið óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf innan sýslunnar og meðal annars verið aðaldriffjöðrin í Skíðafélags Strandamanna. Þá veitti Ungmennafélag Íslands Óskari Torfasyni starfsmerki UMFÍ.

Helstu samþykktir þingsins voru þær að ákveðið var að taka þátt í Vestfjarðameistaramóti í frjálsum sem haldið verður á Bíldudal helgina 18.-20. júlí, er um gamalt mót að ræða sem verið er að endurvekja.

Búningamál félagsins hafa verið í ólestri og var á fundinum ákveðið að setja á stofn búninganefnd sem myndi sjá um þessi mál og hefur hún hafið störf. Var ákveðið að HSS myndi niðurgreiða búninga. Ekki er starfandi framkvæmdastjóri og var samþykkt að íþróttaráð sambandsins myndi sjá um mót sumarsins í samstarfi við stjórnina.

Fundarstjóri var Jóhann Björn Arngrímsson og fundarritarar voru Ragnheiður Birna Guðmundsdóttir og Jóhanna Ása Einarsdóttir. Stjórn HSS gaf öllum aðildarfélögum sem sendu fulltrúa bókina Vormenn Íslands. Gestir fundarins voru Helga Guðjónsdóttir formaður UMFÍ og Sæmundur Runólfsson framkvæmdastjóri UMFÍ.