22/12/2024

Fréttir af Kór Átthagafélagsins

Töluverðar fréttir eru af Kór Átthagafélags Strandamanna þessa dagana. Undanfarið hefur kórinn unnið að því að taka upp efni á geisladisk sem ætlunin er að gefa út með vorinu. Upptökur hófust síðasta vor í Langholtskirkju og koma ýmsir listamenn til aðstoðar við kórinn. Þá er kórinn að gefa út bók með uppáhaldsjólauppskriftum kórfélaga og verður hún til sölu hjá kórfélögum og á aðventuhátíð sem verður nú á sunnudaginn 4. desember í Bústaðakirkju og hefst kl. 16:30. Þar stjórnar Krisztina Szklenár söng kórsins auk þess sem barnakórinn syngur nokkur lög undir stjórn Jensínu Waage. Judith Þorbergsson annast undirleik og hugvekju flytur Ingimundur Benediktsson.

Kaffihlaðborð er að venju að loknum aðventutónleikunum og er innifalið í miðaverði sem er 1.800 fyrir fullorðna og frítt fyrir 14 ára og yngri.

Ekki er allt búið enn, því nú er til skoðunar ferð til Kanada næsta sumar, en kórinn hefur verið beðinn að syngja á 17. júní hátíðarhöldum í Winnipeg. Verið er að leita leiða til að þetta geti gengið eftir.