22/12/2024

Fréttapistlar af Ströndum í Svæðisútvarpi

Kristín S. Einarsdóttir kennari á Hólmavík hefur tekið að sér að flytja öðru hvoru pistla í Svæðisútvarp Vestfjarða, en það er á dagskrá virka daga frá 17:30-18:00. Hefur hún núna tvisvar sinnum lesið Vestfirðingum pistilinn í jákvæðri merkingu þeirra orða. "Þegar fram líða stundir hef ég vonir um að tæknivæðast enn frekar og geta þá tekið viðtöl og fréttir á vettvangi. Í dag er einkum um að ræða stutta pistla af mannlífinu á svæðinu og einstaka fréttir. Einnig hef ég verið að skrifa fyrir Bændablaðið að undanförnu, en það blað er vaxandi miðill og málsvari landsbyggðarinnar. Þá er ég fréttaritari Morgunblaðsins síðan 2003," segir Kristín.

"Allar ábendingar um efni frá íbúum eru vel þegnar og ég keyri fúslega vítt og breitt um héraðið til að afla frétta. Ég legg áherslu á að senda frá mér jákvæðar fréttir og að starfið sé góð kynning á samfélaginu sem við búum í," segir Kristín að lokum.