Aðsend grein: Sigurður Pétursson.
Frelsi og jafnrétti eru hugtök sem stjórnmálamenn og flokkar skreyta sig með. Það er hinsvegar mikil ósvífni þegar fulltrúar núverandi stjórnarflokka reyna að skreyta sig með slíkum fjöðrum. Lítum á nokkur dæmi:
Núverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, eiga heiðurinn af versta ójafnrétti sem lagt hefur verið á þjóðina í áratugi. Með kvótakerfi í sjávarútvegi hefur ótrúlegum fjármunum verið stýrt í vasa ákveðinna útvalinna einstaklinga, svo engin dæmi eru um slíkt allt frá dögum einveldis og einokunar. Peningar og völd hafa verið flutt frá vinnandi fólki til sjós og lands og fengin í hendur útvöldum einstaklingum í formi einkaréttar til að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar, fiskimiðin við landið. Afleiðingin hefur verið einhver mesta eignatilfærsla sem sögur fara af, þar sem forréttindum úthlutað af ríkisvaldinu er breytt í verslunarvöru sem er keypt og seld, leigð og endurleigð, til að skapa auðæfi í vasa fárra útvaldra. Allt þetta gerist í skjóli pólitískrar verndar sem forysta Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hefur tryggt. Flokkar sem skreyta sig með hugtakinu frelsi til athafna og framtaks, en stunda í raun úthlutun sérréttinda og vernd forréttinda, eins og einvaldsstjórnir fyrri alda.
Þessir sömu flokkar stjórnuðu um áratugaskeið öllu viðskiptalífi landsmanna. Enginn mátti flytja út fiskafurðir, nema með einkaleyfi ráðuneyta sem þessir flokkar fóru með. Útflutningur frystra afurða var bundinn á klafa helmingaskipta, einkaleyfa úthlutað af stjórnmálamönnum. Það var ekki fyrr en jafnaðarmenn ákváðu að brjóta niður þessa einokun að breyting varð á. Þá spáðu menn vandræðum, verðlækkun og hruni (alveg eins og heyrist þegar breyta á kvótakerfinu). Sú spá gekk ekki eftir. Þeir sem innleiddu frelsi í útflutningsmálum voru ekki boðberar frjálshyggjunnar, heldur fulltrúar jafnaðar og réttlætis.
Sama var uppi á teningnum þegar aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu var ákveðin. Meðan Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórnarandstöðu hamaðist hann gegn samningunum og taldi hann stórhættulegan fyrir efnahagslíf landsmanna. Hann skipti um skoðun þegar hann komst í ríkisstjórn. Öfugt var farið með Framsóknarmenn. Þeir voru jákvæðir meðan þeir sátu í ríkisstjórn, en sneru svo blaðinu við. Jafnarðarmenn voru þeir einu sem allan tímann héldu fram sjónarmiðum frelsis og jafnréttis fyrir fólkið í landiu. Og nú vildu allir Lilju kveðið hafa.
Þegar kemur að jafnréttinu, fellur Sjálfstæðisflokkurinn enn dýpra en gagnvart frelsinu. Enda ekki nema von, þar sem grundvöllur flokksins hefur aldrei byggst á þeirri hugsjón. Blekkingatrúðar og brellumeistarar flokksins eru leiddir fram fyrir kosningar til að telja okkur trú um að allir hafi það gott og miklu betra en áður, að meðaltali. Þó vita allir að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar hafa komið hátekjufólki best, en venjulegt launafólk býr við enn meiri byrðar en áður, vegna lægri skattfrelsismarka og skerðingarákvæða á barnabótum og hærri afborgana af lánum vegna þenslu, gengissveifla og verðbólgu síðustu ára. Svo ekki sé minnst á stöðu aldraðra og öryrkja og þau lífskjör sem mörgum þeirra eru búin.
Þannig er það með frelsið og jafnréttið. Það hljómar vel í ræðum og riti. Þegar kemur að raunveruleikanum eru það önnur lögmál sem gilda. Gömlu valdakerfin, hagsmunaverðir okursamfélagsins, kvótaflokkanna, olíufélaganna, bankafurstanna og annarra sérhagsmunaafla hafa stýrt ríkisstjórnarflokkunum, Íhaldi og Framsókn. Og það munu þeir gera áfram, nema þeir fái réttláta ráðningu í kosningunum 12. maí.
Er ekki kominn tími til að láta hlýja vinda raunverulegra hugsjóna leika um þjóðlífið undir forystu jafnaðarmanna? Veljum Samfylkinguna fyrir frelsi og jafnrétti.
Sigurður Pétursson,
skipar fjórða sæti á lista Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi