Um næstu helgi fara fram sveitarstjórnarkosningar um land allt. Hér birtast því
nokkrar leiðbeiningar til þeirra sem ætla að kjósa utankjörstaða, en það geta
allir þeir gert sem ekki komast á kjörstað á laugardaginn. Yfirleitt fer
atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram hjá sýslumönnum, en í Reykjavík fer
atkvæðagreiðslan fram í Laugardalshöllinni og er þar opið frá 10 til 22 alla
daga. Erlendis er yfirleitt hægt að kjósa á skrifstofu sendiráðs og á sjúkrahúsum,
dvalar- og vistheimilum er heimilt að greiða atkvæði á stofnunni á þeim tíma sem
kjörstjóri ákveður. Kjósandi sem ekki kemst á kjörfund á kjördegi vegna
sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar má greiða atkvæði í heimahúsi, en verður að
sækja um það skriflega ekki síðar en kl. 16:00 fjórum dögum fyrir kjördag. Sá
frestur rennur út í dag.
Kjósandi sem greiða vill atkvæði utan kjörfundar
þarf að sýna skilríki. Hann stimplar síðan eða ritar atkvæði sitt á
kjörseðilinn, bókstaf lista eða nöfn þeirra sem hann kýs, og setur síðan
atkvæðið í kjörseðilsumslagið. Atkvæði er síðan sett í sérstök umslög og það
merkt sýslumanni eða kjörstjórn þar sem kjósandi er á kjörskrá. Á sendiumslag á
að rita nafn kjósanda, kennitölu og lögheimili.
Bæði er hægt að greiða
atkvæði utan kjörstaðar hjá sýslumanni þar sem kjósandi er á kjörskrá og einnig
utan þess umdæmis. Ef kosið er utankjörstaðar þar sem kjósandi er á kjörskrá
skilar hann umslaginu í atkvæðakassa á staðnum, en annars þarf hann sjálfur að
koma atkvæðinu til skila. Þá er mikilvægt að kjósa tímanlega, til að ná
örugglega að koma atkvæðinu á kjörstað í sinni heimabyggð fyrir lok kjörfundar.
Þannig ber kjósandi sjálfur ábyrgð á því að koma atkvæðinu til skila.
Allar upplýsingar um framkvæmd kosninganna er hægt að nálgast á kosningavefnum www.kosningar.is.