22/11/2024

Framboð til stjórnlagaþings

Aðsend grein eftir Jón Pálmar Ragnarsson (2446)
Stjórnlagaþing er afar áhugaverð tilraun til að endurskoða stjórnarskrána og í senn forvitnilegt hvað kemur út úr þeirri endurskoðun. Þjóðfundur var haldinn 6. nóvember síðastliðinn þar sem þátttakendur létu í ljós þær skoðanir sínar á því hvaða gildi Íslendingar ættu að hafa í heiðri. Niðurstöður þjóðfundarins eru öllum aðgengilegar og stjórnlagaþing mun hafa þær til ráðgjafar við störf sín.

Bakgrunnur minn

Undirritaður er frambjóðandi til stjórnlagaþings. Ég er frá Kollsá í Hrútafirði sem er í sveitarfélaginu Bæjarhreppi vestan megin Hrútafjarðar. Þar eru foreldrar mínir bændur og ég á 3 yngri systkini. Núna er ég búsettur í Reykjavík, og hef verið síðan 2007 við háskólanám. Vorið 2010 útskrifaðist ég með BA gráðu í stjórnmálafræði með atvinnulífsfræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands. Nú er ég í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu við sama skóla.

Af hverju endurskoðun?

Sumir gætu spurt: Af hverju að endurskoða stjórnarskrána og af hverju núna? Stjórnarskránni höfum við Íslendingar lítið breytt síðan okkur var hún fengin að gjöf frá Danakonungi. Í raun er þessi stjórnarskrá sem við búum við í dag einungis bráðabirgðastjórnarskrá til að stofna lýðveldi. Stjórnarskrárnefndir hafa verið starfandi í gegnum áratugina sem hafa haft það hlutverk að móta tillögur að breytingum á henni. Margt gott hefur komið fram í þeim nefndum en sjaldan hafa tillögurnar verið notaðar. Stærsta breyting fyrr og síðar á stjórnarskránni var innleiðing mannréttindakaflans fyrir nokkrum árum. Alltaf hefur staðið til að breyta henni en hafa verður í huga að það er ekki bara breytinganna vegna. Þrískipting valdsins er ekki nógu vel aðgreind í henni, það þarf að laga. Valdmörk forsetaembættisins má vera skýrara. Þingræði þarf að vera órofinn partur af stjórnarskránni, orðið þingræði kemur hvergi fyrir í henni í dag. Hið sama gildir um orðið lýðræði og þinglega ábyrgð. Ráðherraábyrgð þarfnast frekari skilgreiningar.

Áherslur mínar

Ég hef listað upp helstu áhersluatriði mín á heimasíðu mína, www.jonpalmar.com. Ég hvet þig til að líta þar við og sjá hvernig ég hugsa um stjónarskrána, hverju ég vil breyta og hvernig.

Að lokum

Ég vil ekki hafa þessa grein langa heldur vil ég frekar ítreka við þig kæri kjósandi,  að mæta á kjörstað og nýta atkvæðisrétt þinn. Það sem ég hef fram að færa eru þær áherslur sem eru aðgengilegar á heimasíðu minni, menntun mín og þekking á íslenskri stjórnskipun. Hér með gef ég boltann á þig og óska eftir stuðningi þínum við framboð mitt.

Jón Pálmar Ragnarsson
Framboðsnúmer: 2446
jonpalmar@gmail.com