Á vefsíðunni Áfram Finnbogastaðir kemur fram að söfnunin til styrktar Guðmundi á Finnbogastöðum hefur sannarlega gengið vonum framar: "Miðvikudaginn 1. október, eftir að plata nýja hússins hafði verið steypt, afhenti Kristmundur Kristmundsson formaður Félags Árneshreppsbúa Guðmundi 6,5 milljónir króna sem safnast hafa á síðustu mánuðum. Bruninn á Finnbogastöðum varð 16. júní og strax um kvöldið hleypti Kristmundur söfnuninni af stað. Viðbrögðin voru frábær frá fyrstu stundu og sýndu að Mundi átti marga vini og velunnara."
Á www.trekyllisvik.blog.is segir ennfremur:
"Íbúðarhúsið, sem byggt var af föður Munda árið 1938, brann til kaldra kola og þar missti hann allt sitt. Ekki hvarflaði að honum að leggja árar í bát, og enn rauk úr rústunum þegar hann var byrjaður að leggja drög að nýju húsi. Tryggingarnar bæta slíkan stórskaða aldrei að fullu, og því hefur söfnun Félags Árneshreppsbúa verið mjög mikilvæg.
Auk þeirra fjármuna sem safnast hafa er gaman að segja frá því að margir hafa lagt sitt af mörkum með vinnu, akstri, efni og öðru slíku, og munum við vonandi ná að þakka þeim öllum hér á síðunni!
Síðast en ekki síst er gaman að segja frá því að ekki króna af söfnunarfénu hefur farið í kostnað, heldur rennur það óskipt til málstaðarins.
Kristmundur lagði áherslu á það, þegar hann afhenti söfnunarféð í dag, að átakinu væri hreint ekki lokið. Áfram yrði haldið enda mikil útgjöld framundan. Kristmundur vildi jafnframt koma á framfæri djúpu þakklæti til allra sem lagt hafa sitt af mörkum. Öll framlög væru stór.
Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509."