Í fréttatilkynning frá Kennarasambandinu kemur fram að það er mat Kennarasambandsins að forsendur samstöðu um kjaramál séu brostnar vegna þess að ríkið hefur ekki komið að samráði samtaka launamanna og vinnuveitenda. Hins vegar leggur KÍ áherslu á að samstaða launamanna haldi áfram, eins og sjá má nánar í ályktun hér að neðan sem samþykkt var af stjórn KÍ og kjararáði sambandsins á dögunum:
„Kennarasamband Íslands hefur undanfarna mánuði tekið þátt í víðtæku samráði samtaka launamanna og vinnuveitenda á almennum og opinberum vinnumarkaði. Í þessari vinnu var markmiðið að leita færra leiða í kjaramálum, atvinnumálum og velferðarmálum vegna kjarasamninga á næstu mánuðum. Þetta starf hefur farið fram við erfið skilyrði vegna slæms atvinnuástands, efnahagslegra áfalla og þrenginga í ríkisfjármálum. Í starfinu var frá upphafi gengið út frá því að ríkistjórn landsins ætti hlut að máli í því samkomulagi sem næðist. Bæði samtök launamanna og vinnuveitenda hafa reynt að fá skýra mynd af aðkomu ríkistjórnarinnar að málinu en ekki haft erindi sem erfiði. Kennarasambandið er ósátt við að ríkisstjórnin hafi ekki komið að þessu samráði. Nú bætist við óljós staða um stjórn landsins. KÍ telur að þær forsendur sem lagt var upp með séu brostnar og skoða þurfi málin upp á nýtt.
KÍ telur hins vegar mjög mikilvægt að samráð og samstaða launamanna og samtaka þeirra haldi áfram á þessum erfiðu tímum.
KÍ leggur í samræmi við hlutverk sitt sem kennarasamtök höfuðáherslu á að verja skólastarf og menntun í landinu og mun beita sér gegn öllum aðgerðum sem vega að námi og skólagöngu barna og ungmenna. KÍ telur starf með börnum og ungmennum í skólum landsins jafnt í kennslu sem og öðru starfi vera mikilvægan lið í því að skapa nemendum skjól og öruggan samastað á þeim erfiðu tímum sem Íslendingar ganga nú í gegnum.“