22/12/2024

Forsendur atvinnuþróunar á Vestfjörðum og víðar á Íslandi

Grein frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða
Víða í þjóðfélaginu á sér nú stað mikil umræða um atvinnuþróun, enda ljóst að framundan er mjög alvarlegur efnahagsvandi með tilheyrandi gjaldþrotum og atvinnuleysi. Ísland hefur vart staðið frammi fyrir slíkri kreppu áður, því vandinn er svo víðtækur. Fyrir Vestfirði og landsbyggðina alla, skiptir þessi umræða miklu máli, að því gefnu að sérstaða og hagsmunir landsbyggðarinnar komi þar skýrt fram. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða vinnur markvisst að stefnumótun og faglegri uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum og vill þess vegna með þessari grein, benda á nokkur atriði sem skipta öllu máli í umræðu um atvinnustefnu og atvinnuþróun á Vestfjörðum sem og á landinu öllu:

1. Stuðningur við atvinnuþróun. Ekkert nýtt fjármagn (umfram hefðbundin framlög) er lagt til Atvinnuþróunarfélaganna í nýjum fjárlögum  á sama tíma og atvinnuleysi eykst. Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá er gert ráð fyrir 10% atvinnuleysi og því ætti að efla þau tæki sem ríkið og sveitarfélög hafa til að auka ný atvinnutækifæri með eflingu atvinnuþróunarfélaganna. Óbreytt framlög þýða raunskerðingu og um leið samdrátt í starfsemi þessara félaga, sem þó hafa það hlutverk að sinna atvinnuþróun á landsbyggðinni. Ný atvinnustefna verður að gera ráð fyrir því að hægt sé að efla atvinnuþróunarfélögin og stofna staðbundna fjárfestingarsjóði undir þeirra umsjón, svo hægt sé að efla frumkvöðla og sprotafyrirtæki á landsbyggðinni  líkt og gert er á höfuðborgarsvæðinu.

2. Samgöngumál. Hvergi mun þrífast skilvirkt og öflugt atvinnulíf  ef boðlegar samgöngur eru ekki til staðar.  Vestfirðir eru langt frá því að vera eitt atvinnusvæði  þar sem fjallvegir lokast  milli norðurs og suðurs í 6-8 mánuði á ári.

3. Orkumál. Hvergi á landinu er afhendingaröryggi raforku verra en á Vestfjörðum. Hvergi á landinu eru skemmdir af völdum flökts á rafmagni meiri en á Vestfjörðum.

4. Samskiptamál. Öflugt atvinnulíf þarf að treysta á örugg og hnökralaus samskipti. Vestfirðir eru ekki með fullt gsm samband. Fullkomin ljósleiðaravæðing hefur ekki enn náð til Vestfjarða.

Allt þetta eru staðreyndir sem ekki verður horft fram hjá. Þessum staðreyndum hefur landsbyggðin og Vestfirðingar sérstaklega þurft að laga sig að og móta sitt atvinnulíf að þeim takmörkunum sem þessar staðreyndir skapa. Það er ljóst að Vestfirðir hafa þurft að sjá á eftir fjölmörgum atvinnutækifærum þar sem þessi eðlilega grunngerð er ekki til staðar. Sama gildir á öðrum svæðum á landsbyggðinni.

Í allri umræðu um atvinnuþróun og uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi þarf því að tengja saman áform og stefnu stjórnvalda og aðstæður á hverjum stað á landinu. Mikilvægt er að horfa til sérstöðu einstakra svæða og byggja á þeirri sérstöðu í atvinnuppbyggingunni, en reyna ekki að innleiða sömu stefnu á öllum svæðum.  Það hefur sýnt sig, að sú leið sem oft er kölluð “copy-paste” er ekki vænlegust til árangurs.

Ný byggða- og atvinnustefna þarf að vera sértæk og sveigjanleg og byggð á sérstöðu hvers landshluta. Á Vestfjörðum er t.d. vænlegast að einblína á sjávarútveg, fiskeldi og allt það sem á einn eða annan hátt tengist hafinu og nýtingu þess. Þar liggur sérstaða Vestfjarða. Síðan eru önnur landsvæði sterkari í landbúnaði o.s.frv.

Aðeins staðreyndir um ástand landsvæða, um verðmætasköpun og sérkenni einstakra svæða, um mannauð, menntaframboð og vilja einstakra svæða til markvissrar atvinnuþróunar og viðvarandi búsetu, skapa grunnlag fyrir trúverðuga og raunhæfa atvinnu- og byggðastefnu á Íslandi.

Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða
Þorgeir Pálsson, framkvæmdastjóri