22/11/2024

Forn bræðsluofn kominn í ljós á Strákatanga

Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingurHringlaga múrsteinshlaðinn bræðsluofn frá fyrri hluta 17. aldar hefur nú komið í ljós við fornleifauppgröftinn í Hveravík við Steingrímsfjörð. Þar hafa Strandagaldur og Náttúrustofa Vestfjarða unnið að rannsóknum undanfarið um hvort áberandi tóftir á Strákatanga séu rústir fornrar hvalveiðistöðvar baskneskra hvalfangara. Að öllum líkindum mun svo vera en á síðasta ári voru gerðir könnunarskurðir og í þeim komu í ljós ýmsar leifar, s.s. leirkerabrot, múrsteinabrot og reykpípur. Undanfarna viku hafa Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur og Magnús Rafnsson sagnfræðingur haldið greftrinum áfram og einbeitt sér að staðnum þar sem líkur voru taldar að bræðslan sjálf hafi verið.

Nú hefur nánast verið staðfest að það muni vera rétt en í ljós kom haganlega múrsteinshlaðinn bræðsluofn, hringlaga um það bil fimm metrar í þvermál. Á myndunum að neðan má sjá þá félaga við uppgröftinn ásamt yfirlitsmynd af því sem eftir er af bræðsluofninum. Á þeim má glöggt sjá móta fyrir einskonar rampi þar sem hvalurinn hefur verið dreginn upp á, eftir að hafa verið bútaður niður í fjöruborðinu, og hent niður í bræðsluna þar ofan frá.

Fornleifarannsóknin á Strákatanga mun halda áfram eitthvað fram í nóvember, og þá verður hafist við handa við að skrifa skýrslur og niðurstöður rannsóknarinnar kynntar. Væntanlega verður svo þráðurinn tekinn upp að nýju á næsta ári. Nokkrir smámunir hafa fundist við rannsóknina undanfarið, m.a. hnöttótt og þung byssukúla, væntanlega úr framhlaðningi.

Þau gleðitíðindi bárust aðstendendum verkefnisins í lok síðustu viku að að Landsnet og Landsvirkjun hyggjast styðja við verkefnið myndarlega með 250.000 króna styrkframlagi hvort fyrirtæki. Kaldrananeshreppur hefur einnig stutt myndarlega við verkefnið ásamt Fornleifasjóði. Stefnt er að því að næsta vor verði komið fyrir merkingum við Strákatanga sem segir frá uppgreftrinum og hvalveiðum útlendinga við Steingrímsfjörð á öldum áður, að höfðu samráði við landeigendur og Vegagerðina.

Þessi rannsókn er grundvöllur þess að sú hugmynd kom upp að stefna að því að gera Steingrímsfjörð að Mekka hvalaskoðunar af landi á Íslandi þar sem fólki gæfist færi á að fylgjast með hvalaferðum um fjörðinn sem hafa verið talsverðar undanfarið. Íbúar við Steingrímsfjörð hafa verið iðnir að tilkynna hvalakomur á sérstakri vefsíðu hjá Strandagaldri en einnig verður lögð áhersla á annað dýralíf við fjörðinn, s.s. fuglalíf en talsverðar rannsóknir hafa verið gerðar á fuglalífi við fjörðinn.

Á heimasíðu Strandagaldurs er einnig að finna skýrslur þeirra Ragnars og Magnúsar sem varða forkönnun rannsóknarinnar fyrir ári síðan þegar rannsóknin hófst. Þær er hægt að nálgast með því að smella hér.

580-baskarannsokn06-1
Á þessari mynd sést bræðsluofninn greinilega. Ljósm.: Ragnar Edvardsson

  580-baskarannsokn06-3
Rampurinn upp á vinnupallinn sést greinilega á þessari mynd þar sem hvalbræðslumennirnir hafa væntanlega dregið hvalspikið upp að ofninum

580-baskarannsokn06-2
Annað sjónarhorn frá fornleifauppgreftrinum

580-baskarannsokn06-4
Yfirlitsmynd af svæðinu sem verður kannað í þessari umferð.

Ljósm.: Sigurður Atlason