22/12/2024

Flugfélagið býður í Gjögurflug

Flugfélag Íslands átti lægsta tilboð í áætlunarflug á tveimur flugleiðum, milli Reykjavíkur og Gjögurs í Árneshreppi og Reykjavíkur og Bíldudals. Félagið bauð 86,4 milljónir króna í flugleiðirnar tvær til þriggja ára, en í útboðinu er reiknað með tveimur ferðum á viku á Gjögur og sex ferðum til Bíldudals. Þrjú önnur flugfélög buðu í, Ernir ehf. bauð tæpar 172 milljónir, Mýflug hf. bauð 165 milljónir og Landsflug ehf. bauð tæpar 112 milljónir. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 132,6 milljónir. Landsflug hefur sinnt flugi á Gjögur síðustu árin.