Flóabardaginn 2011 verður haldinn á Ströndum í ágúst, en í honum takast þátttakendur á við erfiða hlaupa- og hjólaþraut en ekki síður glíma þeir við eigin getu. Klöngrast þarf 60 km leið og vaða ár og læki. Baráttan hefst laugardaginn 13. ágúst næstkomandi klukkan 10.00 og endar þegar hún endar. Nánari upplýsingar er að finna á www.cursusiceland.com og spyrjast má fyrir í netfanginu cursusiceland@cursusiceland.com
Leiðarlýsing
Byrjað við kaupfélagið í Norðurfirði. Hjólað inn Norðurfjörð og fyrir Urðartind, þaðan inn að Melum og inn á afleggjarann við Eyrarháls. Keppendur hjóla yfir Eyrarháls og niður að Eyri við Ingólfssfjörð. Á Eyri við Ingólfssfjörð er þjónustuborð með vatni og veigum. Þaðan er hjólað inn Ingólfsfjörð og aftur út að Seljanesi. Á afleggjaranum við Seljanesbæinn er vatn og veigar. Þaðan er lagt á Seljanesmúlann og inn Ófeigsfjörð. Hjólað er fyrir fjörðinn, vaðið yfir Húsá og inn að Hvalá (vatnsmesta fljóti Vestfjarða), þar geta keppendur fengið vatn og veigar.
Við Hvalá stíga keppendur af hjólunum og vaða ánna sem er breið og köld. Þaðan er hlaupið yfir strandatún, og inn í Eyvindafjörð. Í Eyvindafirði þurfa keppendur að vaða aðra á, eða velja brúnna sem er töluvert ofar. Hlaupið er út með Evindafirði og inn að Skerjasundum, keppendur þurfa að finna gataklettinn og hlaupa í gegnum hann. Þar eru keppendur myndaðir og skráðir. Þar geta þeir fengið hressingu, vatn og veigar. Hlaupið er inn Drangavík og vaðið yfir Drangavíkurá. Við Drangavíkurá er lagt á Drangaháls, og hlaupið eftir gamalli en vel sýnilegri hestaleið. Uppi á hálsinum er starfsmaður og geta keppendur fengið vatn og veigar. Hlaupið er niður að norðanverðu og þá er komið niður í Drangahlíð. Hlaupið er vestur eftir Drangahlíð, yfir Gvendarbrunn og inn að Drangabænum þar sem keppni lýkur. Alls um 60 km.
Drykkjarstöðvar
Drykkjarstöðvar eru fimm á leiðinni og að sjálfsögðu við markið.
Markið og verðlaunaafhending
Markið er við bæinn að Dröngum og fá keppendur góða hressingu og aðhlynningu við komuna í markið.
Keppndur geta síðan slakað á áður en þeir fá góðan kvöldverð. Þeir sem vilja geta farið í heitu laugina við Húsá eða farið í létta gönguferð.
Verðlaun
Veitt eru verðlaun fyrir 3. efstu sætin í bæði karla og kvennaflokki.
Öryggismál
Slysavarnafélagið í Árneshreppi ásamt heimamönnum verða með gæslu og þjónustu á leiðinni. Slysavarnamenn verði búnir sjúkrakössum til fyrstu hjálpar.
Það verður hraðbátur á flóanum til að geta komið keppendum til hjálpar.
Bílar (trúss) fylgi hjólreiða keppninni inn að Hvalá, með aukabúnað og þess háttar.
Engu að síður er ítrekað að hlauparar taka þátt í hlaupinu á eigin ábyrgð og skulu vera í því líkamlega formi sem þarf til að taka þátt í hlaupi sem þessu.
Skráningargjald
Skráning fer fram á cursusiceland@cursusiceland.com og er opið fyrir skráningu til 10. ágúst. Skráning er gild eftir að gengið hefur verið frá skráningargjald.
Skráningargjald er 39.900 kr. Ef gengið er frá skráningargjaldi fyrir 20. júlí er gjaldið 34.900 kr.
Innifalið í skráningargjaldi er kjötsúpa og leiðsögn á föstudagskvöldinu. Flutningur á farangri að Dröngum, flutningur á hjólum. Allur matur eftir að hlaup hefst og þar til keppendur eru kvaddir á sunnudeginum. Það er hressing á leiðinni, drykkjarstöðvar. Kvöldmatur á laugardagskvöldinu. Morgunmatur á sunnudegi og hressing eins og til þarf.
Þjónusta
Þjónusta við keppendur í Norðurfirði:
- Undirbúningur, „velkomst", skráning, kynning, öryggisatriði, sundlaugarferð, kvöldmatur.
- Ráslínan við Kaupfélagið.
- Keppendur þurfa að greiða sjálfir fyrir gistingu á Norðurfirði. Enn geta að sjálfsögðu fengið aðstoð við það, hvort sem gist er í tjöldum eða gistiheimilum.
Þjónusta við keppendur í keppninni sjálfri:
- Búið að merkja leiðina með litlum flöggum þar sem ekki er ljóst hvert halda skal, til dæmis við vöð, hvar á að halda á Drangahálsinn og þess háttar.
- Vatn, orkudrykkir og hressing.
- Keppendur ljósmyndaðir af starfsmönnum.
Þjónusta við keppendur á Dröngum:
-
Gisting í gamla húsinu. Keppendur komi með svefnpoka eða sængur. Allur farangur keppenda verður fluttur með bát að Dröngum.
-
Kjötsúpa, selkjöt með uppstúf og kartöflum, saltfiskur með selspiki, drykkir og aðrar veigar.
-
Grillveisla og með því.
Sunnudagurinn 14. ágúst 2011
Morgunmatur – Hafragrautur og slátur.
Keppendur geta farið í göngutúra og notið sín í botn á þessum afskekkta stað áður en silgt er með keppendur aftur á Norðurfjörð og dagskrá lýkur.
Aðrar upplýsingar.
Lágmarksaldur er 18 ára. Með skráningu ábyrgist þátttakandi að hann er líkamlega í stakk búinn til að taka þátt í löngu fjallahlaupi í krefjandi landslagi. Hlaupaleiðin liggur um hæðir, hóla, vötn og ár, því skulu hlauparar gæta þess að vera hæfilega útbúnir.
Hámarksfjöldi þátttakanda er 50 hlauparar.
Þátttakendur skulu gæta þess vel að skilja ekki eftir rusl á leiðinni.