22/12/2024

Fjórðungssamband Vestfirðinga ályktar um vegamál

Fjórðungssamband Vestfjarða hefur ályktað gegn frestun framkvæmda í samgöngumálum í fjórðungnum með ítarlegri ályktun sem fylgir hér á eftir. Í henni er ákvörðunin kölluð reiðarslag og færð rök fyrir hvers vegna byggð og atvinnulíf á Vestfjörðum megi ekki við því að framkvæmdum á Vestfjörðum verði frestað. Lýsir Fjórðungssambandið yfir áhyggjum af því að ákvörðunin geti haft verulegt bakslag í för með sér fyrir fjórðunginn. Í lokaorðum greinargerðarinnar er farið fram á að orð skuli standa.

Ályktun stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga um frestun útboða á vegaframkvæmdum á Vestfjörðum til ótilgreinds tíma

Samgöngumál og þá vegagerð sérstaklega, hafa um áratuga skeið verið helsta baráttumál Vestfirðinga. Vestfirðir hafa í raun setið eftir miðað við aðra landshluta og segja má að nútímavæðing vegakerfisins á Vestfjörðum hafi ekki hafist fyrr en í upphafi tíunda áratugarins. Ekki er framhjá því litið að í heild var um viðamikið verkefni er að ræða í vegagerð, auk stórverkefna á borð við jarðgöng undir Botns- og Breiðadalsheiðar. Hraði framkvæmda var sveiflukenndur í upphafi. Með samgönguáætlun 2003-2014 var sett fram áætlun um jafnari framlög um leið og framkvæmdum í vegamálum var hraðað með auknu framkvæmdafé. Þar var einnig sett fram heildarsýn um hvenær framkvæmdum á stofnvegum á Vestfjörðum væri lokið.  

Sveitarstjórnir og atvinnulíf á Vestfjörðum hafa gagnrýnt þann framkvæmdahraða sem settur var fram í Samgönguáætlun, en þar var miðað við allt að 12 ár tæki að ljúka uppbyggingu stofnvega. Á móti hefur verið bent á að vegafé sé takmarkað en þar hafa framlög og upphafleg áætlun nokkuð staðist og verið um 12 til 13 milljarðar á ári. Af þessu fé er áætlað að á þessu 12 ára tímabili fari um 550 mkr til Vestfjarða á ári hverju.

Stjórnvöld hafa síðan gripið inn í með aðgerðir sem ýmist hafa aukið eða dregið úr framkvæmdum. Á árinu 2003 var aukið við vegafé um 3 milljarða í sérstöku átaki ríkisstjórnar til að bregðast við samdrætti í atvinnulífi.  Var þar af veitt um 1 milljarði króna í framkvæmdir á Vestfjörðum. Uppgangur í efnahagslífi frá og með árinu 2004 leiddi síðan til þess að ákveðið var draga úr opinberum útgjöldum og dregið var úr vegafé á því ári um 1,5 milljarða, þar af 160 mkr á Vestfjörðum. Á árinu 2005 var af sömu ástæðu ekki talið mögulegt að auka við framkvæmdafé að nýju en þess var vænst að sparnaður síðasta árs yrði nýttur á þessu ári. 

Í framhaldi af samþykkt ríkisstjórnarinnar haustið 2005 og í kjölfar sölu Símans voru samþykkt lög um ráðstöfun söluandvirðisins. Þá var ákveðið að ráðstafa 15 milljörðum til vegaframkvæmda á tímabilinu 2007 til 2009 og eru áætlaðir 1,5 milljarðar, þar af, til framkvæmda á Vestfjörðum.

Þessar breytingar hafa leitt til þeirrar niðurstöðu að miðað við Samgönguáætlun 2003 -2014 hefur tekist að flýta framkvæmdum á Vestfjörðum um 1 til 3 ár, auk nýrra verkefna svo sem vegar um Arnkötludal og Gautsdal og jarðgöng í stað vegar um Óshlíð. Með auknu vegafé af söluandvirði Símans var því mörkuð sú stefna að bundið slitlag yrði komið á vegi frá þéttbýlisstöðum við Djúp og á Ströndum til Reykjavíkur í lok árs 2008, auk styttingar um 40 km. Á sama tíma yrði framkvæmdum á Vestfjarðavegi flýtt og framlög aukin á árunum 2009 og 2010. Þar næðist einnig sú niðurstaða að Vestfjarðavegur væri á láglendi og með bundnu slitlagi á árinu 2010. Þéttbýlisstaðir á Vestfjörðum byggju þá loks við sömu aðstæður og flestir aðrir þéttbýlisstaðir á Íslandi hafa búið við í áratugi. 

Aðrir þættir hafa einnig komið til nú á síðustu misserum sem eru auknar kröfur um almennt öryggi vega og lækkun flutningskostnaðar. Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga metur það af umræðu um þessa þætti að í raun megi ekki setja lengri tímamörk á að ljúka endurbótum eða nýframkvæmdum á þeim vegarköflum sem eftir eru. Þolinmæði þessara aðila er á þrotum gagnvart tíðum slysum sem rekja má til lítils burðarþols og lélegra gæða vega og ljóst að erfitt er að semja um lækkun flutningsgjalda við þetta ástand.
 
Stjórn Fjórðungssambandsins telur að ákveðinni sátt hafi verið náð haustið 2005 og sá stjórn sambandsins ástæðu til að fagna því á þeim tíma. Stjórn sambandsins horfði einnig til þess að verið væri verið að vinna í samhengi við aðrar efnahagsaðgerðir stjórnvalda í samvinnu við sveitarfélög og atvinnulíf á Vestfjörðum. Hér er um að ræða aðgerðir svo sem Vaxtarsamning Vestfjarða, átak í sameiningu sveitarfélaga samhliða flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga, aukið fjármagn til Jöfnunarsjóðs og Byggðaáætlun 2006 til 2009. Markmiðið er að þessar aðgerðir verði til að efla efnahagslíf og bæta þannig samkeppnisstöðu svæðisins. En á sama tíma og aðrir landshlutar hafa notið góðs af þenslu efnahagslífsins hafa fyrirtæki á Vestfjörðum gengið í gegnum verulegar þrengingar vegna hás gengis og vaxta.

Með lækkun gengis í upphafi árs 2006 hefur rekstarstaða útflutningsgreina batnað. En það mun taka tíma að ná til baka tapi undanfarinna ára. Hafa samtök útgerða og fisvinnslu sett fram það mat að fyrir sjávarútveg taki það hátt í tvö ár að vinna það upp. Sé þetta rétt mat, má segja að það fari vel saman bætt rekstarstaða fyrirtækja og lok stórra áfanga í vegamálum með verklokum á árunum 2008-2010. Innan annarra atvinnugreina hefur einnig verið hafin undirbúningur verkefna sem taka mið af þessum verklokum, þar má nefna uppbyggingu í ferðaþjónustu og markaðsetningu sem byggir á nýjum aðstæðum í vegamálum.  Einnig hafa sveitarfélög hafið undirbúning að nánari samstarfi.

Með ákvörðun ríkisstjórnar nú í lok júní 2006 eru öllum útboðum ríkisins frestað ótímabundið, þar með framkvæmdum sem Alþingi hefur samþykkt í fjárlögum 2006 og í lögum um ráðstöfun andvirðis af sölu Símans hf. Lögum sem verður þá væntanlega að breyta ef þetta á fram að ganga. Kemur þetta til viðbótar ófyrirséðum töfum á undirbúningi framkvæmda á Vestfjörðum vegna mats á umhverfisáhrifum.

Frestun framkvæmda í vegagerð og þess vegna einungis hugmyndir um frestun þeirra eru reiðarslag fyrir atvinnulíf og sveitarfélög á Vestfjörðum. Hefur það komið fram í ályktunum atvinnulífs, sveitarstjórna og félagasamtaka. Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga lýsir því miklum áhyggjum af þessari þróun mála og telur að hér verði um verulegt bakslag fyrir Vestfirði að ræða, með samdrætti í stað vaxtar. Varað er við að slíkt bakslag geti orðið mun dýrara fyrir íslenskt samfélag þegar upp er staðið, en sá árangur sem vænst er í efnahagslífi með frestun framkvæmda í vegamálum á Vestfjörðum. Vestfirskt atvinnulíf og íbúar hafa sýnt biðlund á síðustu þrem árum og tekið á sig þrengingar í efnahagslífi á meðan þensla hefur verið í öðrum landshlutum. 

Nú verða orð að standa og skorar stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga á ríkisstjórn að endurskoða þessa ákvörðun um frestun framkvæmda í vegagerð á Vestfjörðum og efna þær áætlanir sem settar hafa verið fram í samgöngumálum Vestfirðinga.
 
Ísafirði 6. júlí 2006
Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga