26/12/2024

Fjör í sveitinni: Af búskaparbasli gamla Bassa

Vefnum strandir.saudfjarsetur.is hefur borist frásögn af búskaparraunum Guðbrandar Sverrissonar á Bassastöðum í Steingrímsfirði, en þar á bæ hafa ýmis undur og stórmerki orðið nú á haustdögum. Bæði hefur ær og lamb sem talin voru af í fyrra komið af fjalli og önnur ær tók upp á því að bera nú í miðri sláturstíðinni. Frásögn Guðbrandar, sem sjálfur kallar sig gamla Bassa, er á þessa leið: "Nú gerist það æ oftar að ær heimtist ekki fyrr en langt er liðið á vetur og getur margt valdið og ýmsar tilgátur komið fram um ástæður …"

"Þær eru að vísu ekki allar vel rökum studdar, enda tilgátusmiðir sjálfsagt ekki vandanum vaxnir fremur en smalarnir sem sökinni er þó skellt á. Sem dæmi um það sem upp kemur þegar orsakir eru krufðar til mergjar er að smalarnir séu alltof feitir, fjórhjólin átti sig ekki á hvar skjáturnar leynist, óþekkar fjallafálur hlaupist á brott meðan smalinn leggur sig eftir matinn og ýmislegt fleira getur hent í öræfakyrrðinni. Það nýjasta er að ærnar séu farnar að átta sig á að ekki sé vinsælt að koma með lítil og óásjáleg lömb af fjalli. Þau fari bara í kæfu eða eitthvað ámóta lélegt, á meðan stóru læramiklu lömbin með mikla bakvöðvann fara beint á steikarpönnu höfðingjanna og verða að veislumat, eins og öll lítil lömb dreymir um verða þegar þau verða stór.

En hvað um það. Undirritaður sleppti á fjall vorið 2008 lambgimbur með litla lambinu sínu og vonaðist eðlilega eftir stóru og fallegu lambi af fjalli sama haust. Það brást herfilega og voru þær mæðgur taldar af  þegar voraði loks eftir strembinn vetur og þær ekki komnar í hús. En hvað skeður, jú nú kemur kella 11. október af fjalli, bara einu ári á eftir áætlun, með stærðar lamb og skrambi góð með sig, þó það tæki að vísu tvö ár í að koma þessu í heppilega stærð. Þetta er stærsta lamb sem gamli Bassi hefur fengið af fjalli á löngu búskaparbasli, 71 kg og ærin 78 kg.

Og ekki var öllu láni lokið því daginn eftir, þann 12. október, bar hún Mógolsa gamla sem átti að fá hæga ellidaga (fædd 1995). Hefur hún þegar hún slapp frá oki húsbændanna í vor náð sér í ungan og sprækan elskhuga og átt með honum unaðslega stund í bjartri vornóttinni sem kveikti með henni nýtt líf er birtist nú í fyllingu tímans.

Og Lilja mín …. ha neiii, nú er ég hættur, ekki fleiri stelpur !!!!  …. kominn á sjötugsaldur, stooopp.

Guðbrandur Sverrisson, Bassastöðum."

bottom

landbunadur/480-kindarlegir2.jpg