30/10/2024

Fjölmargir Strandamenn á unglingalandsmót

Fjölmargir leggja land undir fót um Verslunarmannahelgina eins og venjulega, en straumurinn af Ströndum liggur örugglega fyrst og fremst á Unglingalandsmótið á Sauðárkróki. Þangað eru mættar fjölmargar fjölskyldur af Ströndum og munu ýmist keppa eða fylgjast með keppnishaldinu um helgina. Eins hefur heyrst af nokkrum hópi sem er á leið á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Á Ströndum verða rólegheit í hávegum höfð, þó hefur frést af listsýningu á Eyri í Ingólfsfirði, messum í Árnesi og Nauteyrarkirkju, kaffihlaðborði í Djúpavík og auðvitað verða söfnin og margvísleg afþreying í gangi. Fréttavefurinn strandir.saudfjarsetur.is hvetur alla til að fara varlega í umferðinni, best er heilum vagni heim að aka.