22/12/2024

Fjöldi námskeiða á Ströndum og nágrenni í vetur

Námsvísir Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða veturinn 2011-2012 er kominn út og verður dreift í öll hús á Vestfjörðum á næstu dögum. Þar er að finna yfirlit yfir þau námskeið og námsleiðir sem búið að er ákveða að bjóða upp á í vetur. Eins og alltaf er fjölbreytnin í fyrirrúmi og ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi. Rétt er að hafa í huga að alltaf bætist eitthvað við sem ekki hefur náð inn í Námsvísinn. Það er því um að gera að fylgjast með á vef Fræðslumiðstöðvarinnar – www.frmst.is – en þar er að finna upplýsingar um öll námskeið.

Meðal þess sem verður í boði fyrir Strandir og nágrenni í vetur er námskeið í ensku fyrir leiðsögumenn og aðra í ferðaþjónstu sem stefnt er að í október 2011 og er kennt í fjarnámi. Tölvunámskeið hefst 17. október og nefnist það Tölvan sem vinnutæki. Einnig er tölvunámskeið fyrir lesblinda 8.-10. nóvember.

Af viðameira námi má nefna 95 kennslustunda nám sem heitir Aftur í nám og verður kennt haustið 2011. Grunnmenntaskóli, 300 kennslustunda nám á tveimur önnum, er einnig framundan og er ætlunin að kenna á Drangsnesi og e.t.v. víðar á svæðinu. 60 kennslustunda nám um meðferð matvæla verður kennt á Hólmavík vor 2012.  

Viðburðastjórnun verður kennd í mars 2012 og Vélgæsla (réttindanám) verður einnig í boði, kennt í Tjarnarlundi í Saurbæ.

Af öðrum námskeiðum má nefna námskeið sem nefnistGamalt verður nýtt (saumanámskeið), Heklaðir skartgripir, Skrautskrift,  Arfur kynslóðanna og Þessi gamli bær – átthagafræði Hólmavíkur, en það síðastnefnda verður kennt í nóvember.

Í fjarfundi verður fyrirlestraröð um náttúruna, alþýðlegir fyrirlestrar um náttúrufræðileg efni og verður fyrsti fyrirlestur 20. október. Þetta er í samvinnu Náttúrustofu Vestfjarða, Rannsóknaseturs Háskóla Íslands og Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.