23/12/2024

Fjarskiptasjóður undirbýr þrjú verkefni

Fjarskiptasjóður undirbýr nú þrenns konar verkefni. Þau eru á sviði aukinnar farsímaþjónustu, háhraða nettenginga og dreifingar sjónvarps- og útvarpssendinga til strjálbýlla svæða. Lokið er forvali vegna þéttingar GSM farsímanetsins á hringveginum og fimm fjallvegum, þar á meðal Steingrímsfjarðarheiði, og næsta skref er að bjóðendur sem hafa uppfyllt skilyrði fái afhent útboðsgögn. Gert er ráð fyrir að skrifa megi undir samning við verktaka í byrjun næsta árs og að framkvæmdir gætu hafist í framhaldi af því.

Markmið þessa áfanga verkefnisins er að GSM-farsímaþjónustan nái yfir allan hringveginn og fjallvegina Fróðárheiði, Steingrímsfjarðarheiði, Þverárfjallsveg, Fagradal og Fjarðarheiði. Alls eru þetta um 500 km svæði og er búið að kortleggja hvar þörf er á sendum. Lengsti kaflinn á hringveginum þar sem GSM-samband er ekki fyrir hendi í dag er um Mývatnsöræfi eða um 80 km langur kafli. Jafnframt þessu er ætlunin að bæta farsímaþjónustu á Barðaströnd í fyrsta hluta verkefnisins. Settur verður upp sendir í Flatey á Breiðafirði en hann mun ná til nærri því helmings leiðarinnar um Barðaströnd þar sem farsímaþjónustu nýtur ekki við í dag.

Þetta er fyrri hluti áætlunar um endurbætur á GSM-farsímanetinu og gert er ráð fyrir að síðari hluti hennar verði tilbúinn til útboðs snemma á næsta ári. Snýst sá hluti um stofnvegi og helstu ferðamannastaði á landinu.

Annað verkefni fjarskiptasjóðs er undirbúningur útboðs vegna háhraðatenginga fyrir alla landsmenn. Snýst það um að allir landsmenn sem þess óska hafi aðgang að háhraðatengingum og á þjónustan að ná yfir þau svæði sem markaðsaðilar telja sig ekki geta sinnt vegna fámennis. Verið er að greina hvaða svæðum markaðurinn muni ekki sinna, skilgreina gæðakröfur og ákveða útboðsleið. Í þessu sambandi er einnig ætlunin að fulltrúar fjarskiptasjóðs ræði við fulltrúa sveitarfélaga og verður efnt til þeirra funda á næstu vikum og mánuðum.

Þriðja verkefni fjarskiptasjóðs sem nú er í deiglunni er dreifing á stafrænu sjónvarpi og hljóðvarpi um gervihnött til sjómanna á miðum við landið og til strjálbýlla svæða, en nokkur heimili í landinu búa við óviðunandi eða engar útvarps- og sjónvarpssendingar. Leitað hefur verið eftir samstarfi við Ríkisútvarpið og er verið að kanna hvaða gervihnetti hugsanlegt er að nota í þessu sambandi. Ákveðið hefur verið að fara svonefnda samningakaupaleið; að samið verði við ákveðinn aðila um framkvæmd þjónustunnar. Er verið að kanna tæknilegar hliðar málsins en stefnt er að því að gengið verði frá samningi fyrir lok ársins.

Fréttin er stytt útgáfa á frétt af vef Samgönguráðuneytis.