22/12/2024

Fjáröflunartónleikar í Hólmavíkurkirkju

Miðvikudagskvöldið 24. júní næstkomandi munu tónlistarmennirnir Bjarni Ómar Haraldsson og Stefán Jónsson  vera með fjáröflunartónleika í Hólmavíkurkirkju klukkan 20:30. Aðgangseyrir er 1500 kr. en 500 kr. fyrir yngri en 16 ára. Aðgangseyrir fer óskiptur í sjóð sem ætlað er að standa undir kaupum á hálfflygli fyrir nemendur Tónskólans á Hólmavík.  Á tónleikunum munu Bjarni og Stefán flytja lög af Fyrirheitum, sólóplötu Bjarna Ómars en frá  því að platan kom út í haust hafa þeir ferðast með efnið og kynnt plötuna víða um land.

Bjarni Ómar og Stefán hafa hlotið mikið lof fyrir tónlistarflutninginn og platan hefur fengið mjög góða dóma. Meðal annars sagði Morgunblaðið í gagnrýni að á plötunni hafi verið vandað til verka í hvívetna og að hér sé á ferðinni plata sem væri eitt af þessum fölskvalausu hliðarverkefnum sem út komu á síðasta ári. Að margra mati er um að ræða allt aðra upplifun af efni plötunnar á þessum tónleikum heldur en á plötunni enda ólíku saman að jafna þar sem lögin á  plötunni eru í stórum hljómsveitarútsetningum en á tónleikunum er túlkun þeirra Bjarna og Stefáns afar einlæg í þægilegum útsetningum fyrir píanó, kassagítar og söng.

Allir nemendur, foreldrar og velunnarar Tónskólans á Hólmavík eru hvattir til að leggja sitt af mörkum til söfnunarinnar og eiga um leið skemmtilega og góða kvöldstund með þeim Bjarna og Stefáni.

Vakinn er athygli á að hægt er að greiða aðgangseyri með debet og kreditkortum. Þetta  eru næst síðustu tónleikarnir í þessari tónleikaröð en þeir síðustu verða á Kaffi Norðurfirði laugardaginn 27. júní og hefjast kl. 20:00.