22/12/2024

Fjármálaráðherra á villigötum

Aðsend grein: Kristinn H. Gunnarsson
Þjóðlendukröfur fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisvaldsins eru langt umfram það sem eðlilegt má teljast. Gerðar eru ýtrustu kröfur og er best lýst með því að dæmi eru um að ríkið véfengir réttmæti þess að hafa selt jörð fyrir fáum áratugum og krefjist þess að ríkið eigi jörðina eftir sem áður.

Kröfugerð ríkisvaldsins hefur komið bændum í opna skjöldu enda var yfirlýstur tilgangur þjóðlendulaganna að útkljá vafamál um eignarhald á landi. Fáir munu hafa átt von á að fjármálaráðherra myndi gera svo víðtækan ágreining sem raun ber vitni. Hefði það legið ljóst fyrir við lagasetninguna er nokkuð víst að ótækt  hefði verið talið það ákvæði laganna að ríkið ætti allt land sem enginn gæti sannað eignarrétt sinn á. Sönnunarbyrðin var sett á landeigendur og það er augljóst að erfitt er að finna óyggjandi eigendasögu jarðar allt frá landnámi.

Við þessar aðstæður eru dómstólar að skera úr um eignarhald út frá því sem menn halda eða trúa en ekki því sem vitað er. Það gengur ekki og þess vegna verður að breyta lögunum á þann veg að meginreglan verði að taka gild þinglýst landamerkjabréf. Fram hefur komið að þinglýst bréf eftir lagasetninguna 1882 hafa að mestu haldið og er því eðlilegt að styðjast við þau. Með þessari breytingu færist sönnunarbyrðin yfir á ríkið sem verður þá að sýna fram á annmarka gömlu landamerkjabréfanna og hnekkja þeim.

Einfaldasta breytingin er annars sú að skipta um ríkisstjórn og setja nýja menn í verkin, sem eru ekki bundnir af fyrri ákvörðunum og þurfa ekki að verja þær eða sýna pólitíska samstöðu með fyrri ráðherrum. Hófsamir og sanngjarnir ráðherrar eru besta lausnin á þessum heimatilbúna vanda stjórnarflokkanna. Þá verða kröfur ríkisins sanngjarnar og líklegt að mál leysist í friði. Bændur og landeigendur eiga betra skilið en ófrið af hendi fulltrúa ríkisvaldsins sem allir ráðherrar síðasta áratug bera jafna og óskipta ábyrgð á. En hver hefði getað látið sér detta í hug að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur reyndust helstu þjóðnýtingarflokkar landsins? Heilladrýgst er að velja frelsið og kjósa Frjálslynda flokkinn.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður
www.kristinn.is.